Fyrirtækja- og fjárfestingarbankasvið

Starfsemi fyrirtækjasviðs og fyrirtækjaráðgjafar Arion banka, sem áður voru rekin hvor undir sínu sviði innan bankans, tók breytingum síðastliðið haust þegar einingarnar voru sameinaðar undir nafni fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs. Sviðið veitir fyrirtækjum og stofnunum heildstæða þjónustu varðandi fjármögnun og ráðgjöf til fyrirtækja um uppbyggingu höfuðstóls, áætlanagerð og skyld mál, sem og ráðgjöf og þjónustu varðandi samruna fyrirtækja og kaup á þeim. Framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs er Ásgeir H. Reykfjörð Gylfason, aðstoðarbankastjóri Arion banka.

Fyrirtækjasvið veitir millistórum og stórum fyrirtækjum alhliða fjármálaþjónustu sem og sérsniðnar lausnir sem taka mið af þörfum þeirra hverju sinni. Mörg af rótgrónustu fyrirtækjum landsins eiga farsælt viðskiptasamband við fyrirtækjasvið og hafa verið viðskiptavinir bankans eða forvera hans í áratugi. Þar spila góð samskipti og þekking á þörfum viðskiptavina lykilhlutverk. Á fyrirtækjasviði starfar fjöldi einstaklinga með fjölbreytta menntun, sérfræðiþekkingu og áratugareynslu af fjármálastarfsemi. Innan sviðsins starfa tvö teymi. Sjávarútvegs- og þjónustuteymið þjónar annars vegar útgerðarfyrirtækjum og fiskeldisfyrirtækjum landsins ásamt stærri viðskiptavinum bankans í hinum ýmsu geirum, m.a. í ferðaþjónustu, innflutningi, smásölu, upplýsingatækni og fjárfestingar- og vátryggingastarfsemi. Fasteigna- og innviðateymið býður upp á sérhæfða þjónustu við fyrirtæki í fasteigna- og orkugeira ásamt því að þjóna fyrirtækjum á sviðum fjarskipta, flutninga, stóriðju og annars konar iðnaðar. Þá er starfrækt á fyrirtækjasviði deild sem sér um flóknari innheimtumál, fullnustu eigna og skjalagerð. Forstöðumaður fyrirtækjasviðs er Jón Finnbogason.

Mörg af rótgrónustu fyrirtækjum landsins eiga farsælt viðskiptasamband við fyrirtækjasvið og hafa verið viðskiptavinir bankans eða forvera hans í áratugi. Þar spila góð samskipti og þekking á þörfum viðskiptavina lykilhlutverk.

Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka veitir ráðgjöf við kaup, sölu, samruna og yfirtökur á fyrirtækjum og stærri eignarhlutum ásamt því að vera leiðandi umsjónaraðili með skráningu verðbréfa í samvinnu við markaði. Meðal viðskiptavina fyrirtækjaráðgjafar eru mörg af stærstu fyrirtækjum Íslands og flestir helstu fjárfestar landsins. Teymið býr yfir mikilli reynslu og yfirgripsmikilli þekkingu þar sem áhersla er lögð á fagmennsku og vönduð vinnubrögð. Forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar er Lýður Þór Þorgeirsson.

Áherslubreytingar fylgja skipulagsbreytingum

Við skipulagsbreytingar síðastliðins hausts var áherslubreytingum innan sviðsins jafnframt hrint í framkvæmd. Lánabók fyrirtækjasviðs hefur á undanförnum árið vaxið þónokkuð, samhliða almennt jákvæðum skilyrðum í efnahagsumhverfi landsins. Mörkuð hefur verið sú stefna að lánabók fyrirtækjasviðs taki til sín minna af eigin fé bankans með því að eignum utan kjarnaeigna verður fækkað. Þessari áherslubreytingu verður meðal annars framfylgt með enn sterkari skoðun innan sviðsins á skiptingu lánasafnsins, til að mynda með tilliti til atvinnuvegaskiptingar og verðlagningar. Þá mun bankinn jafnframt leitast við að selja frá sér eignir eða nýta markaðsfjármögnun í ríkari mæli þegar það er til hagsbóta fyrir viðskiptavini bankans. Með því að færa fyrirtækjasvið og fyrirtækjaráðgjöf undir sama svið myndaðist heildstæðari keðja innan bankans til að veita alhliða þjónustu varðandi fjármögnun og ráðgjöf fyrirtækja.

 

Samfélagsábyrgð og umhverfismál

Arion banki hefur markað sér skýra stefnu þegar kemur að samfélagsábyrgð og umhverfis- og loftslagsmálum. Saman látum við góða hluti gerast er yfirskrift stefnu bankans um samfélagsábyrgð sem kristallast í að starfa með ábyrgum hætti í sátt við samfélag og umhverfi. Starfsfólk fyrirtækja- og fjárfestingabankasviðs hefur stefnur bankans að leiðarljósi í öllum sínum störfum og leggur sitt af mörkum til upplýstrar umræðu og ákvarðanatöku. Á árinu 2018 voru lánareglur bankans uppfærðar og inn komu ákvæði um að horfa sérstaklega til þátta sem snúa að samfélagsábyrgð við lánaákvarðanir og starfar fyrirtækjasvið eftir þeim ákvæðum.

Á árinu tók bankinn þátt í sambankaláni til Landsvirkjunar þar sem vaxtakjör eru tengd árangri Landsvirkjunar við að uppfylla ákveðin viðmið tengd samfélagsábyrgð og sjálfbærni. Sem dæmi um viðfangsefni sviðsins á sviði samfélagsábyrgðar og umhverfismála má nefna að öll lán fyrirtækjasviðs til orkuiðnaðar eru á sviði endurnýjanlegrar orku. Lán bankans til sjávarútvegs miða í öllu að sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar og allar fasteignir sem fyrirtækjasvið kemur að því að fjármagna notast við jarðvarmaorku til húshitunar. Þá hefur fyrirtækjaráðgjöf lagt áherslu á aukna þekkingu á þróun sjálfbærs skuldabréfamarkaðar.

Sem dæmi um viðfangsefni sviðsins á sviði samfélagsábyrgðar og umhverfismála má nefna að öll lán fyrirtækjasviðs til orkuiðnaðar eru á sviði endurnýjanlegrar orku. Lán bankans til sjávarútvegs miða í öllu að sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar og allar fasteignir sem fyrirtækjasvið kemur að því að fjármagna notast við jarðvarmaorku til húshitunar.
Virk þátttaka fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs í uppbyggingu efnahagslífsins styður við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 7 um sjálfbæra orku, markmið 8 um góða atvinnu og hagvöxt og markmið 9 um nýsköpun og uppbyggingu.

Rekstur ársins, vaxtaberandi eignir í lok árs, skipting lánasafns

Vaxtaberandi eignir sviðsins námu í árslok um 320 milljörðum króna. Útlán til viðskiptavina voru um 312 milljarðar króna eða sem nemur um 40% af heildarútlánum Arion banka til viðskiptavina og 77% af útlánum til fyrirtækja.

Skipting lánasafns fyrirtækjasviðs eftir atvinnugreinum 31.12.2019
Lánasafn fyrirtækjasviðs endurspeglar helstu greinar atvinnulífsins. Stærstu atvinnugreinar í lánasafninu eru fasteignir og tengdur rekstur, 31%, sjávarútvegur, 24%, og verslun og þjónusta, iðnaður og fjármála- og tryggingastarfsemi með 11% hver.