Áhættustýringarsvið

Áhættustýringarsvið bankans er sjálfstæð stjórnunareining og ber ábyrgð gagnvart bankastjóra. Framkvæmdastjóri sviðsins er Gísli S. Óttarsson.

Áhættustýringarsvið skiptist í þrjár einingar.

Útlánaeftirlit ber ábyrgð á yfirferð lána með tilliti til niðurfærsluþarfar og tekur ákvarðanir um niðurfærslu. Einingin hefur einnig eftirlit með safnlægri útlánaáhættu í lánasafni bankans, eins og samþjöppun á einstaka lántakendur eða á einstakar atvinnugreinar, auk þess að hafa eftirlit með afskriftum, fjárhagslega tengdum aðilum og stórum áhættuskuldbindingum til fjárhagslega tengdra aðila.

Undir ábyrgðarsvið Efnahagsáhættu fellur markaðsáhætta, lausafjáráhætta, eiginfjárgreining, líkanagerð og framkvæmd álagsprófa í bankanum. Deildin greinir og hefur eftirlit með kerfislægum ójöfnuði og áhættum á efnahagsreikningi bankans. Framkvæmd innra mats á eiginfjárþörf (ICAAP) og lausafjárþörf (ILAAP) bankans er á ábyrgð deildarinnar. Einingin ber ábyrgð á þróun og rekstri lánshæfismatslíkana bankans.

Rekstraráhættudeild tilheyrir annarri varnarlínu og veitir fyrstu varnarlínu stuðning við að stýra áhættu sem tengist daglegum rekstri bankans. Deildin styður svið bankans við innra eftirlit, framkvæmd áhættusjálfsmata, skráningu tapsatburða og gerð verkferla.

Öryggisstjóri bankans tilheyrir áhættustýringu en meginhlutverk hans er að vinna að stefnumótun öryggismála, hafa yfirumsjón með þeim og upplýsa öryggisnefnd og framkvæmdastjórn. Hann ber jafnframt ábyrgð á viðbragðsáætlunum bankans.

Gagnastjóri bankans tilheyrir einnig áhættustýringu en hlutverk hans er að skipuleggja og fylgja eftir umbótum í gagnamálum og stjórnháttum fyrir gögn bankans í heild. 

Áhættustjóri lífeyrissjóða í rekstri hjá Arion banka er staðsettur á áhættustýringarsviði og heyrir undir framkvæmdastjóra. Áhættustjóri lífeyrissjóða uppfyllir hlutverk ábyrgðaraðila áhættustýringar í samræmi við lög 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og reglugerð 590/2017 um eftirlitskerfi með áhættu lífeyrissjóða. Með því að staðsetja áhættustjóra á áhættustýringarsviði er leitast við að tryggja honum sjálfstæði frá þeim starfseiningum sem annast rekstur lífeyrissjóða og hann hefur eftirlit með.

Nánari umfjöllun um áhættustýringu bankans er að finna í umfjöllun um áhættustýringu og í áhættuskýrslu bankans fyrir árið 2019.