Ábyrg bankastarfsemi

Arion banki er fjárhagslega sterkur banki sem veitir alhliða fjármálaþjónustu til fyrirtækja og einstaklinga með það að markmiði að skapa verðmæti til framtíðar, viðskiptavinum, hluthöfum, samstarfsaðilum og samfélaginu öllu til góða. Yfirskrift stefnu bankans um samfélagsábyrgð er saman látum við góða hluti gerast og felur meðal annars í sér að bankinn vilji vera öðrum fyrirmynd um ábyrga og arðbæra viðskiptahætti sem taka mið af umhverfi, efnahagslífi og því samfélagi sem bankinn starfar í.

Gildi Arion banka köllum við hornsteina og eiga þeir að vera leiðbeinandi við ákvarðanatöku og í öllu sem stjórnendur og starfsfólk bankans segir og gerir. Hornsteinarnir koma inn á hlutverk, hugarfar og hegðun en þeir eru: gerum gagn, látum verkin tala og komum hreint fram. Siðareglur bankans eru síðan viðmið fyrir starfsfólk til að stuðla að ábyrgri ákvarðanatöku og eru samþykktar af stjórn.

Stefna Arion banka um samfélagsábyrgð

Við viljum vera öðrum fyrirmynd um ábyrga og arðbæra viðskiptahætti sem taka mið af umhverfi, efnahagslífi og því samfélagi sem við störfum í. Við setjum okkur í spor viðskiptavina og leitumst stöðugt við að gera betur í dag en í gær.

Við störfum á eftirsóknarverðum vinnustað þar sem þekking skapar verðmæti til framtíðar, viðskiptavinum, fjárfestum og samfélaginu öllu til góða.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá helstu hagsmunaðila Arion banka og áhersluatriði varðandi samfélagsábyrgð.

Skýrslugjöf um samfélagsábyrgð

Hjá Arion banka leggjum við áherslu á að samfélagsábyrgð sé hluti af daglegri starfsemi bankans, ákvarðanatöku og ferlum. Í annað sinn eru upplýsingar um samfélagsábyrgð og sjálfbærni unnar samkvæmt Global Reporting Initiative staðlinum, GRI Core, sem hjálpar fyrirtækjum og stofnunum að miðla upplýsingum tengdum samfélagsábyrgð á gagnsæjan og samanburðarhæfan hátt. Við miðlun upplýsinga um ófjárhagslega þætti í starfseminni er einnig notast við viðmið Nasdaq á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum og 10 grundvallarviðmið Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð. Einnig er horft til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Ábyrgar lánveitingar og fjárfestingar

Fjármagn getur verið hreyfiafl til góðra verka og það hvernig bankar stýra fjármagni getur haft afgerandi áhrif á framgang sjálfbærrar þróunar í hverju landi fyrir sig og á heimsvísu. Þess vegna leggur Arion banki sig fram um að gera stöðugt betur í sinni starfsemi og hafa jákvæð áhrif.

Eignastýring Arion banka og Stefnis, dótturfélags bankans, voru með rúma eitt þúsund milljarða í stýringu í árslok 2019. Það svið innan bankans sem sinnir eignastýringu fagfjárfesta hefur innleitt í starfshætti sína verklag ábyrgra fjárfestinga sem felur í sér að við stýringu eigna er horft til þriggja grunnþátta sjálfbærni; umhverfis, samfélags og stjórnarhátta. Þannig er ekki aðeins horft til fjárhagslegra þátta heldur einnig annarra þátta sem taldir eru viðeigandi við greiningu á fjárfestingum og uppbyggingu eignasafna viðskiptavina. Sjá ítarlegri umfjöllun um ábyrgar fjárfestingar á vefsíðu bankans og umfjöllun um eignastýringu.

Á árinu 2018 voru lánareglur bankans uppfærðar og inn komu ákvæði um að horft skuli til umhverfis, samfélags og stjórnarhátta við mat á lánveitingum. Á árinu 2020 ætlum við að ganga lengra og meta lánasafn bankans út frá grænum viðmiðum, setja okkur metnaðarfull markmið varðandi grænar lánveitingar og setja okkur stefnu um lánveitingar til einstakra atvinnugreina út frá sjálfbærni.

Í september gerðist Arion banki aðili að nýjum meginreglum um ábyrga bankastarfsemi, Principles for Responsible Banking, sem kynntar voru á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Við sem störfum hjá Arion banka leggjum mikla áherslu á að starfa á ábyrgan hátt og í sátt við samfélag og umhverfi. Meginreglur um ábyrga bankastarfsemi ríma mjög vel við stefnu bankans og því er það okkur sönn ánægja að vera í hópi fyrstu banka til að lýsa því yfir að við ætlum að fylgja þessum meginreglum.

Hamfarahlýnun af mannavöldum er ein stærsta ógn sem mannkynið stendur frammi fyrir og við þurfum öll að leggja okkar af mörkum til að snúa þeirri þróun við. Loftslagsvandinn mun ekki leysast af sjálfu sér og því þarf margt að breytast á næstu árum og áratugum. Þær breytingar þarf að fjármagna og það er gríðarlega mikilvægt að bankar heimsins dragi vagninn en reki ekki lestina varðandi orkuskipti og græna innviðauppbyggingu.

Meginreglurnar munu meðal annars hjálpa okkur á þeirri vegferð ásamt nýsamþykktri umhverfis- og loftslagsstefnu og markmiðum til næstu ára þar sem m.a. kemur fram að við ætlum að beina sjónum okkar að fjármögnun verkefna sem snúa að sjálfbærri þróun og grænni innviðauppbyggingu og að við munum meta lánasafnið út frá grænum viðmiðum og og setja okkur metnaðarfull markmið í þeim efnum.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka

Okkar skuldbindingar, vottanir og þátttaka í samstarfi á sviði samfélagsábyrgðar og sjálfbærni

 

UNEP FI og meginreglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi - PRB

Í júlí 2019 gerðist Arion banki aðili að UNEP FI, United Nations Environment Programme Finance Initiative (UNEP FI), sem er samstarfsvettvangur umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna og yfir 250 fyrirtækja og stofnana í fjármálageiranum víðs vegar um heim. Þar er fjallað er um áskoranir í samfélags- og umhverfismálum.

Í september gerðist Arion banki aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi, Principles for Responsible banking (PRB), sem mótaðar voru af UNEP FI og 30 alþjóðlegum bönkum. Með reglunum sem kynntar voru við upphaf allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna á árinu er verið að tengja starfsemi banka við mikilvæg alþjóðleg markmið og skuldbindingar á sviði sjálfbærni, eins og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og Parísarsamkomulagið. Arion banki var í hópi þeirra fyrstu til að lýsa yfir stuðningi við meginreglurnar og var þar í hópi um 130 banka frá 49 löndum.

Nánari upplýsingar um aðild Arion banka að meginreglunum

 

Samstarfsvettvangur um loftslagsmál og grænar lausnir - Grænvangur

Í september 2019 gerðist Arion banki einn af stofnaðilum samstarfsvettvangs atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir sem fékk nafnið Grænvangur. Hlutverk Grænvangs er að efla samstarf atvinnulífs og stjórnvalda til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að kolefnishlutleysi árið 2040. Þá mun vettvangurinn einnig vinna með íslenskum fyrirtækjum að markaðssetningu grænna lausna á alþjóðamarkaði og styðja við orðspor Íslands sem leiðandi lands á sviði sjálfbærni.

 

Meginreglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar - UN PRI

Síðla árs 2017 gerðist Arion banki aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar, Principles for Responsible Investment (UN PRI). Meginreglunum er ætlað að hjálpa fjárfestum að skilja áhrif umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS/ESG) á fjárfestingar og styðja þannig við að aðilar að meginreglunum taki ófjárhagslega þætti inn í fjárfestingarákvarðanir sínar. Á árinu 2019 var fyrsta framvinduskýrsla eignastýringar bankans um ábyrgar fjárfestingar birt. Sjá má nánari upplýsingar um ábyrgar fjárfestingar í umfjöllun um eignastýringu bankans.

 

UN Global Compact - sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð fyrirtækja

Arion banki hefur verið aðili að UN Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð fyrirtækja, frá árslokum 2016 og skilar árlega framvinduskýrslu til Global Compact. Í sáttmálanum eru sett fram 10 grundvallarviðmið sem snúa að mannréttindum, vinnumarkaði, umhverfi og baráttu gegn spillingu.

 

Jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins

Arion banki fékk á haustmánuðum 2018 jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins eftir að hafa farið í gegnum endurvottun frá BSI á Íslandi og var þar með fyrstur banka til að hljóta merkið. Bankinn fékk upphaflega Jafnlaunavottun VR árið 2015, einnig fyrstur banka, og hefur farið í gegnum launagreiningar árlega síðan þá. Mikið hefur verið unnið í jafnréttismálum innan bankans á undanförnum árum, sjá nánari upplýsingar í umfjöllun um mannauð og í samantekt á ófjárhagslegum upplýsingum.

 

IcelandSIF - félag íslenskra fjárfesta um ábyrgar fjárfestingar

Arion banki hefur verið virkur þátttakandi í mótun og þróun ábyrgra fjárfestinga á Íslandi og hefur átt fulltrúa í stjórn og vinnuhópum á vegum IcelandSIF, félags íslenskra fjárfesta um ábyrgar fjárfestingar. Arion banki var einn af stofnaðilum samtakanna árið 2017.

Loftslagsyfirlýsing Festu og Reykjavíkurborgar

Í nóvember 2015 gerðist Arion banki aðili að loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar ásamt 103 öðrum fyrirtækjum. Meðal helstu verkefna á sviði loftslagsmála er að ná utan um umhverfisáhrif starfseminnar og að draga markvisst úr neikvæðum áhrifum hennar. Við höfum birt umhverfisuppgjör bankans frá því árið 2016. Nánari upplýsingar um umhverfis- og loftslagmál Arion banka má finna hér og í samantekt á ófjárhagslegum upplýsingum.

 

Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum

Arion banki hlaut viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum að undangengnu formlegu mati sem byggir á leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland gefa út, fyrst í desember 2015 og aftur í apríl 2019. Viðurkenningin er veitt í kjölfar ítarlegrar úttektar óháðs aðila á stjórnarháttum bankans, s.s. starfsháttum stjórnar, undirnefnda og stjórnenda. Viðurkenningin gildir í þrjú ár í senn. Sjá nánari upplýsingar í umfjöllun um stjórnarhætti Arion banka og í samantekt á ófjárhagslegum upplýsingum.

 

Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð

Arion banki hefur um árabil verið virkur aðili að Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð. Hlutverk Festu er að auka þekkingu á samfélagsábyrgð fyrirtækja, stofnana og hvers kyns skipulagsheilda til að tileinka sér samfélagslega ábyrga starfshætti og stuðla að aukinni sjálfbærni.

 

Jafnréttissáttmáli UN Women og UN Global Compact

Frá árinu 2014 hefur bankinn verið aðili að Jafnréttissáttmála UN Women og UN Global Compact. Jafnréttissáttmálinn er alþjóðleg yfirlýsing og samkomulag á vegum Sameinuðu þjóðanna sem fyrirtæki og stofnanir geta haft að leiðarljósi við innleiðingu ábyrgra starfshátta, óháð landi og atvinnugrein, og snúa viðmiðin fyrst og fremst að kynjajafnrétti. Sjá nánari upplýsingar í umfjöllun um jafnréttismál í Arion banka og í samantekt á ófjárhagslegum upplýsingum.

 

ESG-viðmið Nasdaq

ESG-viðmið Nasdaq á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum snúa að upplýsingagjöf um starfsemi og áhrif skráðra fyrirtækja út frá umhverfi, félagslegum þáttum og stjórnarháttum. Frá árinu 2016 hefur Arion banki horft til þessara viðmiða við upplýsingagjöf um samfélagsábyrgð en viðmiðin tóku formlega gildi árið 2017. Sjá nánari upplýsingar í samantekt á ófjárhagslegum upplýsingum.

 

Kolviður

Arion banki og Kolviður gerðu á árinu 2019 samstarfssamning sín á milli um bindingu þeirrar kolefnislosunar sem hlýst af starfsemi bankans. Kolviður mun binda kolefni í gróðri og jarðvegi með landgræðslu og skógrækt á móti þeirri kolefnislosun sem á sér stað í rekstri bankans á árinu 2019. Áætlað er að Kolviður muni gróðursetja allt að 5.000 tré fyrir rekstrarárið. Um er að ræða losun m.a. vegna bifreiða í rekstri bankans, húsnæðis, sorps og flugsamgangna.

GRI - Global Reporting Initiative

Global Reporting Initiative hefur útbúið staðal sem hjálpar fyrirtækjum og stofnunum að upplýsa um framvindu sína varðandi umhverfis-, samfélags- og efnahagsleg málefni á þann hátt að hægt er að bera gögn saman á milli fyrirtækja. Arion banki hefur nú í annað sinn sett fram upplýsingar um samfélagsábyrgð og sjálfbærni í starfsemi bankans samkvæmt staðlinum GRI Core. Sjá GRI tilvísunartöflu Arion banka hér.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Arion banki er aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi frá því í september 2019 og lýsum við þar með því yfir að við munum leggja okkar af mörkum til að mæta þörfum einstaklinga og markmiðum samfélagsins eins og þau eru skilgreind í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Framkvæmdastjórn Arion banka samþykkti í ársbyrjun 2020 sex heimsmarkmið sem bankinn ætlar að leggja megináherslu á. Markmiðin sem unnið verður sérstaklega að eru markmið 5 um jafnrétti kynjanna, markmið 7 um sjálfbæra orku, markmið 8 um góða atvinnu og hagvöxt, markmið 9 um nýsköpun og uppbyggingu, markmið 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu og markmið 13 sem snýr að aðgerðum í loftslagsmálum.

Starfsemi bankans, þar á meðal aðgerðir í jafnréttismálum, stefna og markmið í umhverfis- og loftslagsmálum, stuðningur við frumkvöðla og atvinnulífið í heild, framsækni í stafrænni þjónustu sem og virk þátttaka í uppbyggingu efnahagslífsins ríma vel við þessi heimsmarkmið.

Stýrihópur um samfélagsábyrgð

Í Arion banka er starfandi stýrihópur um samfélagsábyrgð. Verkefnastjóri samfélagsábyrgðar heldur utan um starf hópsins og er bankastjóri ábyrgðarmaður málaflokksins. Í upphafi árs áttu tveir framkvæmdastjórar sæti í stýrihópnum um samfélagsábyrgð, þ.e. framkvæmdastjóri eignastýringar og framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs. Þá áttu sæti í hópnum forstöðumaður mannauðs, forstöðumaður markaðsdeildar og forstöðumaður samskiptasviðs. Í lok árs voru gerðar breytingar á stýrihópnum og nú eiga framkvæmdastjórar viðskiptabankasviðs, markaða og fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs sæti í hópnum ásamt forstöðumönnum samskiptasviðs og markaðsdeildar.

Birgjar 

Í samræmi við það meginmarkmið í stefnu bankans að skapa verðmæti til framtíðar, viðskiptavinum, hluthöfum, samstarfsaðilum og samfélaginu öllu til góða, leitar bankinn í nærumhverfi sitt eftir þjónustu eins og frekast er unnt að því gefnu að birgjar standist kröfur um gæði og hagkvæmni.

Nær allir stærstu og mikilvægustu birgjar bankans starfa á Íslandi. Þrátt fyrir að aðfangakeðja bankans teygi sig út fyrir landsteinana er fyrsti hlekkur hennar oftast á heimamarkaði. Þannig er einungis einn erlendur birgir á meðal 10 stærstu birgja bankans og 11 á meðal þeirra 50 stærstu. Nokkur aukning varð í viðskiptum við erlenda birgja á árinu 2019 og tengist það helst innleiðingu stórra hugbúnaðarlausna þar sem þekkingu skortir hér á landi.

Stærstur hluti erlendra birgja bankans tengist innkaupum á hugbúnaði, ráðgjöf og þjónustu tengdri upplýsingatækni. Vélbúnaður er því sem næst allur keyptur með milligöngu innlendra aðila.

Innkaup skiptast með eftirfarandi hætti á milli 50 stærstu birgja

Við vöndum okkur í innkaupum

Starfsfólk bankans leggur sig fram um að ástunda vönduð vinnubrögð. Árið 2019 tók bankinn til endurskoðunar spurningar í birgjamati um stöðu birgja í jafnréttismálum, vinnurétti og umhverfis- og loftslagsmálum. Nýtt birgjamat var tekið í gagnið í ársbyrjun 2020. Staða birgja í þessum málum mun til framtíðar hafa áhrif á það hversu viljugur bankinn er að ganga til viðskipta við viðkomandi aðila. Bankinn mun jafnframt reglulega meta frammistöðu birgja sem hann á í viðvarandi viðskiptasambandi við. Frammistaðan er metin í samræmi við viðkomandi samning.

Í umhverfis- og loftslagsstefnu bankans sem samþykkt var af stjórn Arion banka í desember 2019 kemur fram að við gerum þá kröfu til birgja okkar að þeir taki mið af umhverfis- og loftslagsáhrifum í sinni starfsemi og þegar valið stendur á milli tveggja sambærilegra tilboða frá birgjum munu loftslags- og umhverfissjónarmið ráða ákvörðun okkar. Markmið bankans er að draga úr losun kolefnis og annarra gróðurhúsalofttegunda sem hlýst af eigin starfsemi um a.m.k. 40% fyrir árið 2030 og kolefnisjafna alla þá losun. 

Öruggt fjármálakerfi – samfélaginu til hagsbóta

Samfélagið treystir á skilvirkt og öruggt fjármálakerfi og Arion banki, eins og önnur fjármálafyrirtæki, gegnir veigamiklu hlutverki við að tryggja að svo sé á íslenskum markaði.

Við byggjum starfsemi okkar á góðu skipulagi, hæfu starfsfólk, öflugu innra eftirliti og skilvirkum og öruggum kerfum.

Arion banki tekur mjög alvarlega þá skyldu sína að tryggja öruggar fjármagnshreyfingar og vernda þær eignir og upplýsingar sem honum hefur verið falið að gæta. Þá leggur bankinn ríka áherslu á að vera ætíð á varðbergi gagnvart hvers kyns fjármunabrotum og fyrirbyggja þau skaðlegu áhrif sem slík brot geta haft á viðskiptavini, rekstur bankans og samfélagið.

Bankinn leggur sérstaka áherslu á aðgerðir til að fyrirbyggja:

  • Fjármunabrot, svo sem peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka, sviksemi og mútur og spillingu
  • Hagsmunaárekstra
  • Markaðsmisnotkun og innherjasvik
  • Tölvuglæpi

Arion banki leggur sig fram um að eiga ekki í viðskiptum við aðila sem stunda hvers kyns ólögmæta starfsemi eða lúta alþjóðlegum viðskiptaþvingunum. Bankinn leggur ríka áherslu á að þekkja viðskiptavini sína og aðra aðila sem hann starfar með og viðhefur eftirlit með fjármunahreyfingum í þeim tilgangi að greina viðskipti sem geta gefið vísbendingu um ólögmæta háttsemi. Þá er bankinn einnig á varðbergi gagnvart tölvuárásum og fjársvikum gegnum netið, en þessar áhættur hafa vaxið samhliða því sem rafræn viðskipti aukast. Sjá upplýsingar fyrir viðskiptavini á vefsíðu bankans

Ekkert eftirlit er þó eins öflugt og vökul augu starfsfólks sem fær reglulega þjálfun í að greina grunsamleg viðskipti eða hegðun og hvernig bregðast skuli við. Árlega gengst starfsfólk okkar undir fræðslu til að viðhalda þekkingu sinni, meðal annars er varðar varnir gegn fjármunabrotum, öryggismál og meðferð trúnaðarupplýsinga.

Grunsemdir um ólögmæta háttsemi viðskiptavina eru án undantekninga tilkynntar lögreglu og bankinn leggur sig fram við að liðsinna yfirvöldum í þeirra rannsóknum.
Arion banki hefur að auki sett sér stefnu um uppljóstranir, þar sem starfsfólk er hvatt til að láta vita ef upp kemur grunur um óviðeigandi eða ólögmæta háttsemi bankans, starfsfólks hans eða samstarfsaðila. Bankinn gætir trúnaðar um uppruna slíkra ábendinga og verndar þá sem stíga fram með grunsemdir sínar, en starfsfólki býðst einnig að senda ábendingar nafnlaust. Allar ábendingar um hugsanlega ólögmæta háttsemi eru rannsakaðar af sjálfstæðum eftirlitseiningum bankans og tilkynntar til viðeigandi yfirvalda eftir því sem tilefni er til. Auk þess býðst starfsfólki, sem og öðrum, að senda ábendingar til Fjármálaeftirlitsins.

Innri reglur og eftirlit

Starfsfólk Arion banka er meðvitað um þá staðreynd að starfsemi bankans hefur áhrif á ólíka hagsmunaaðila og samfélagið í heild sinni. Settar hafa verið starfsreglur, siðareglur og stefnur um ólíka þætti starfseminnar, s.s. um upplýsingagjöf, persónuvernd, upplýsingaöryggi, peningaþvætti og jafnréttismál.

Reglur og skilmálar á vefsíðu bankans

Mikilvægur þáttur í starfsemi bankans og ábyrgð hans gagnvart samfélaginu er að stýra áhættu og taka upplýstar ákvarðanir. Áhættustýring er því grundvallarþáttur í starfsemi bankans og samfélagsábyrgð hans. Stefna bankans er að hafa virka áhættustýringu sem felur í sér að greina og mæla áhættu og grípa til aðgerða ef hún fer út fyrir skilgreind mörk. Samhliða ársskýrslu gefur bankinn út áhættuskýrslu, Pillar 3, þar sem ítarlega er gerð grein fyrir helstu áhættum og stýringu á þeim.

Nánari upplýsingar um innra eftirlit, þ.e. áhættustýringu, innri endurskoðun, regluvörslu og persónuvernd hjá Arion banka, má finna hér.

Stjórnarhættir

Góðir stjórnarhættir stuðla að opnum og traustum samskiptum stjórnar, hluthafa, viðskiptavina og annarra hagsmunaaðila, s.s. starfsmanna bankans og almennings. Stjórnarhættir bankans leggja enn fremur grunninn að ábyrgri stjórnun og ákvarðanatöku, með það að markmiði að skapa varanleg verðmæti. Stjórn bankans leggur ríka áherslu á góða stjórnarhætti og endurmetur stjórnarhætti sína reglulega með tilliti til viðurkenndra leiðbeininga um stjórnarhætti.

Nánari upplýsingar um stjórnarhætti Arion banka og stjórnarháttayfirlýsingu er að finna hér.