Helstu atburðir ársins

Arion banki hefur einsett sér að vera í forystu í stafrænni þjónustu og hafa viðskiptavinir tekið vel í þær nýjungar sem bankinn hefur kynnt á síðustu árum.

Þægileg þjónusta

Arion banki hefur einsett sér að vera í forystu í stafrænni þjónustu og hafa viðskiptavinir tekið vel í þær nýjungar sem bankinn hefur kynnt á síðustu árum. Fjölmargar nýjungar litu dagsins ljós á árinu 2019 og var meðal annars opnað á nýja virkni í Arion appinu í samstarfi við Meniga, Fjármálin mín, sem gefur viðskiptavinum góða yfirsýn yfir fjármál heimilisins með sundurliðun útgjalda. Einnig var appið opnað fyrir viðskiptavinum annarra banka sem geta nú sótt Arion appið og nýtt sér kosti þess. Ekki var látið þar við sitja heldur geta notendur appsins nú sótt sínar bankaupplýsingar til annarra viðskiptabanka og fengið þannig enn betri heildarsýn yfir sín fjármál en áður. Í fyrsta sinn var opnað fyrir kaup á þjónustu frá öðrum þegar tryggingar Varðar voru gerðar aðgengilegar í appinu. Apple Pay var innleitt sem og Android greiðslulausn þannig að nú geta viðskiptavinir greitt fyrir vörur og þjónustu með símum og öðrum snjalltækjum.

Óhætt er að segja að bankaviðskipti hafi tekið stakkaskiptum á síðustu árum og er nú svo komið að um 99% snertinga bankans við viðskiptavini fara fram í gegnum stafrænar þjónustuleiðir. Arion appið vex stöðugt í vinsældum og var árið 2019 fyrsta árið sem fleiri viðskiptavinir nýta sér appið en netbankann. Við mat á árangri bankans á sviði stafrænnar þjónustu og sölu í gegnum stafrænar þjónustuleiðir horfum við til alþjóðlegar samanburðarkönnunar á vegum Finalta, dótturfélags McKinsey, en samkvæmt henni er Arion banki nú í hópi með þeim allra fremstu í heiminum í stafrænni sölu.

Samhliða áherslu á þróun stafrænna lausna leggjum við mikla áherslu á góða persónulega þjónustu í útibúum okkar og þjónustuveri. Stór hluti starfsfólks bankans bæði í höfuðstöðvum og í framlínu fór í gegnum markvissa þjónustuþjálfun í anda straumlínustjórnunar sem nefnist A plús þjónusta.

Við mat á árangri bankans á sviði stafrænnar þjónustu og sölu í gegnum stafrænar þjónustuleiðir horfum við til alþjóðlegar samanburðarkönnunar á vegum Finalta, dótturfélags McKinsey, en samkvæmt henni er Arion banki nú í hópi með þeim allra fremstu í heiminum í stafrænni sölu.

Á árinu var áfram unnið að því að ná fram aukinni hagkvæmni í rekstri útibúa og bættu aðgengi viðskiptavina að þjónustu með því að fækka fermetrum og gera hraðþjónustuleiðum hærra undir höfði. Var útibúi bankans á Hellu breytt og það minnkað og útibúið á Akureyri flutt í nýtt húsnæði á Glerártorgi. Þar er fjarfundarbúnaður, fundarherbergi og viðburðasalur til afnota fyrir viðskiptavini og aðra sem standa fyrir áhugaverðum viðburðum. Þar deilir bankinn rými með tryggingarfélaginu Verði og geta viðskiptavinir því nálgast bankaþjónustu og tryggingar á einum stað.

Breytingar á yfirstjórn og skipulagi

Nokkrar breytingar urðu á stjórn bankans á árinu. Á aðalfundi í mars voru þau Liv Fiksdahl og Renier Lemmens kjörin ný í stjórn bankans. Brynjólfur Bjarnason var kjörinn formaður stjórnar og Herdís Dröfn Fjeldsted varaformaður. Á hluthafafundi í ágúst voru þeir Paul Richard Horner og Gunnar Sturluson kjörnir nýir í stjórn.

Í apríl sagði Höskuldur H. Ólafsson, sem gegnt hafði starfi bankastjóra í um níu ár, starfi sínu lausu hjá bankanum og tók Stefán Pétursson, fjármálastjóri bankans, tímabundið við stöðu bankastjóra á meðan ráðningarferli nýs bankastjóra stóð yfir. Benedikt Gíslason, sem setið hafði í stjórn bankans frá 2018, var ráðinn nýr bankastjóri Arion banka og hóf störf þann 1. júlí. Í júlí var Ásgeir H. Reykfjörð Gylfason einnig ráðinn til bankans og tók við nýju starfi aðstoðarbankastjóra.

Í september voru samþykktar skipulags- og áherslubreytingar sem fólu í sér að starfsfólki bankans fækkaði um 12% og sviðum bankans og framkvæmdastjórum var fækkað um tvo úr átta í sex. Breytingarnar fólu ekki í sér grundvallarstefnubreytingu og er stefna bankans um að veita viðskiptavinum sínum alhliða fjármálaþjónustu því óbreytt. Engu að síður fólu breytingarnar í sér áherslubreytingar og þá sérstaklega þegar kemur að lánveitingum til stærri fyrirtækja. Vegna hárra eiginfjárkrafna og skatta er erfitt fyrir banka að keppa á þeim markaði eigi lánin að skila ásættanlegri arðsemi. Arion banki mun því leggja ríkari áherslu á að veita stærri fyrirtækjum faglega ráðgjöf og aðstoða þau við að finna hagstæðustu fjármögnun hverju sinni. Áherslur bankans hvað varðar lánveitingar til einstaklinga og lítilla og meðalstórra fyrirtækja eru óbreyttar.

Fyrirtæki og fjárfestar

Bankinn aðstoði á árinu Marel þegar fyrirtækið var skráð í kauphöllina í Amsterdam og sá um vel heppnað hlutafjárútboð TM. Bankinn var með mestu hlutdeildina á hlutabréfamarkaði árið 2019 og velti rétt tæpum 248 milljörðum króna sem samsvarar 20,5% hlutdeild en þetta er fjórða árið í röð sem bankinn er stærstur á hlutabréfamarkaði. Arion banki velti 432 milljörðum króna á skuldabréfamarkaði í fyrra sem var þriðja mesta veltan á árinu.

Bankinn var með mestu hlutdeildina á hlutabréfamarkaði árið 2019 og velti rétt tæpum 248 milljörðum króna sem samsvarar 20,5% hlutdeild en þetta er fjórða árið í röð sem bankinn er stærstur á hlutabréfamarkaði.

Eignastýring Arion banka ásamt Stefni dótturfélagi bankans er sem fyrr leiðandi í eignastýringu á Íslandi með yfir 1.013 milljarða króna í stýringu og var ávöxtun góð á árinu. Lífeyrisauki, stærsti séreignarsjóður landsins sem tekur eingöngu við viðbótarframlagi, er í stýringu hjá bankanum. Lífeyrisauki fór á árinu yfir 100 ma. ISK að stærð og eru sjóðfélagar um 80 þúsund. Flestar leiðir sjóðsins skiluðu hárri sögulegri raunávöxtun á árinu.

Innleiðing nýrra grunnkerfa

Unnið var að innleiðingu nýrra grunnkerfa bankans frá Sopra og lausna frá RB. Markmið endurnýjunarinnar er að auka hagræði og draga úr kostnaði við rekstur upplýsingakerfa bankans og styðja við frekari vöruþróun. Nýtt kerfi mun auðvelda bankanum að þróa áfram sína þjónustu og kynna fleiri nýjar stafrænar lausnir sem einfalda viðskiptavinum að sinna sínum fjármálum. Verkefnið er mjög umfangsmikið og koma á annað hundrað starfsmenn að því frá Arion banka, RB og Sopra. Gert er ráð fyrir að kerfið verði tekið í notkun fyrir árslok 2020.

Ábyrg bankastarfsemi og áhersla á umhverfismál

Á árinu undirgekkst bankinn meginreglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi (PRB, Principles for Responsible Banking) ásamt um 130 öðrum bönkum frá ýmsum löndum. Meginreglurnar eru unnar á vegum UNEP FI sem er samstarfsvettvangur umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna og yfir 250 fyrirtækja og stofnana í fjármálageiranum víðs vegar um heiminn og fjallar um áskoranir í samfélags- og umhverfismálum. Meginreglurnar fela í sér ríka áherslu á loftslagsmál og er markmið þeirra að tengja bankastarfsemi við alþjóðleg markmið og skuldbindingar á borð við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og Parísarsamkomulagið.

Arion banki og Kolviður gerðu samning sín á milli um bindingu þeirrar kolefnislosunar sem hlýst af starfsemi bankans. Kolviður bindur kolefni í gróðri og jarðvegi með landgræðslu og skógrækt á móti þeirri kolefnislosun sem átti sér stað í rekstri bankans á árinu 2019. Áætlað er að Kolviður gróðursetji allt að 5.000 tré fyrir þetta rekstrarár bankans.

Stjórn Arion banka samþykkti í desember 2019 metnaðarfulla umhverfis- og loftslagsstefnu og markmið fyrir næstu ár. Í stefnunni felst að Arion banki vill leggja sitt af mörkum til að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu og öðrum innlendum og erlendum loftslagssáttmálum. Einnig voru samþykkt markmið fyrir næstu ár og mun Arion banki á árinu 2020 meta lánasafn bankans út frá grænum viðmiðum og setja markmið í þeim efnum. Markmiðin fela einnig í sér að bankinn mun í auknum mæli beina sjónum að fjármögnun verkefna sem snúa að sjálfbærri þróun og grænni innviðauppbyggingu. Í mati á birgjum verður gerð krafa til þeirra um að þeir taki mið af umhverfis- og loftslagsáhrifum í sinni starfsemi.

Í stefnunni felst að Arion banki vill leggja sitt af mörkum til að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu og öðrum innlendum og erlendum loftslagssáttmálum. Einnig voru samþykkt markmið fyrir næstu ár og mun Arion banki á árinu 2020 meta lánasafn bankans út frá grænum viðmiðum og setja markmið í þeim efnum.

Nánar um umhverfismál

Efnahagur

Arion banki hélt áfram útgáfu sértryggðra skuldabréfa á árinu og gaf út slík bréf fyrir um 32 milljarða króna. Bankinn innleysti að fullu eldri skuldabréfaflokk, ARION CB 2, að upphæð um 81 milljarður króna. Samhliða því að greiða upp ARION CB2 skuldabréfaflokkinn sem var að miklu leyti í eigu Íbúðalánasjóðs seldi bankinn sjóðnum íbúðalán að verðmæti 48 milljarðar króna.

Á árinu 2019 gaf Arion banki út skuldabréf sem hluta af EMTN skuldaramma bankans fyrir samtals um 14 milljarða. Í nóvember 2019 fór bankinn í endurkaup á 300 milljóna evra skuldabréfi með gjalddaga í júní 2020. Bankanum bárust tilboð sem námu 258 milljónum evra (um 35 milljörðum króna) sem var öllum tekið.

Aflögð starfsemi og félög til sölu höfðu neikvæð áhrif á afkomu bankans. Er þar fyrst og fremst um að ræða félögin Stakksberg, sem er eignarhaldsfélag utan um kísilverksmiðjuna í Helguvík, og Valitor, sem er dótturfélag Arion banka. Einnig höfðu ferðaskrifstofur TravelCo sem bankinn þurfti að taka yfir á árinu áhrif. Öll eru þessi félög í sölumeðferð og námu neikvæð áhrif þeirra á afkomu bankans um 13 milljörðum króna.

Arion banki vinnur að því að ná fram hagstæðri fjármagnsskipan sem lið í að auka arðsemi eiginfjár. Mikilvægur þáttur í því er að draga úr viðbótar eigin fé bankans. Í mars 2019 samþykkti aðalfundur Arion banka arðgreiðslu sem nam 10 milljörðum króna eða 5 krónum á hlut. Heimild endurkaupaáætlunar bankans sem hrint var í framkvæmd í október nam allt að 3,2% af útgefnum hlutabréfum eða að hámarki 59 milljónum hluta. Í lok árs hafði bankinn keypt yfir 41 milljón hluta og SDR, um 2,27% af útgefnum hlutabréfum, að andvirði um 3,3 milljarða króna. Samtals námu því arðgreiðslur og endurkaup á árinu um 12,4 milljörðum króna.

Fréttir ársins 2019