Virðing fyrir umhverfinu

Umhverfis- og loftslagsmál eru ofarlega á baugi hjá okkur í Arion banka. Við viljum tryggja heildstætt yfirlit yfir þau umhverfisáhrif sem hljótast af daglegri starfsemi okkar og lágmarka jafnframt neikvæð áhrif. Við gerum okkur grein fyrir að mestu áhrifin sem bankar geta haft í tengslum við umhverfis- og loftslagsmál eru í gegnum lánveitingar og fjárfestingar og við tökum þá ábyrgð alvarlega.

Í desember 2019 samþykkti stjórn bankans nýja og metnaðarfulla umhverfis- og loftslagsstefnu sem er ætlað að styðja enn frekar við þau áform Arion banka að vera til fyrirmyndar í umhverfis- og loftslagsmálum. Stefnan kveður á um kortlagningu umhverfisáhrifa bankans og mikilvægi þess að bankinn hafi jákvæð áhrif á aðra aðila virðiskeðjunnar.

Umhverfis- og loftslagsstefna Arion banka

Við viljum vera til fyrirmyndar í umhverfis- og loftslagsmálum og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif starfseminnar og losun gróðurhúsalofttegunda. Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru ein stærsta áskorun samtímans og við viljum leggja okkar af mörkum svo Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu og öðrum innlendum og alþjóðlegum umhverfis- og loftslagssáttmálum, m.a. um að halda hlýnun jarðar vel innan 2 gráða, helst innan 1,5 gráða.

Bankar gegna lykilhlutverki í því að fjármagna framfarir og Arion banki vill vera hreyfiafl til góðra verka. Við beinum sjónum okkar að fjármögnun verkefna sem snúa að sjálfbærri þróun og grænni innviðauppbyggingu og munum meta lánasafn bankans út frá grænum viðmiðum og setja okkur metnaðarfull markmið í þeim efnum.

Við gerum þá kröfu til okkar birgja að þeir taki mið af umhverfis- og loftslagsáhrifum í sinni starfsemi. Þegar við veljum á milli sambærilegra tilboða frá birgjum munu loftslags- og umhverfissjónarmið ráða ákvörðun okkar. Markmið bankans er að draga úr losun kolefnis og annarra gróðurhúsalofttegunda sem hlýst af eigin starfsemi um a.m.k. 40% fyrir árið 2030 og kolefnisjafna alla þá losun.

Við setjum okkur markmið og birtum árangur hvað varðar þá þætti sem við höfum mest áhrif á, svo sem innkaup, eigin rekstur og þjónustu við viðskiptavini. Með markvissum hætti munum við auka þekkingu starfsfólks á umhverfismálum og styðja við vegferð viðskiptavina okkar í átt að grænni framtíð í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Markmið samþykkt af stjórn:

 • Á árinu 2020 munum við meta lánasafn bankans út frá grænum viðmiðum og setja okkur markmið í þeim efnum.
 • Á árinu 2020 munum við setja okkur stefnu hvað varðar lánveitingar til einstakra atvinnugreina með tilliti til loftslags- og umhverfissjónarmiða.
 • Frá árinu 2020 munum við spyrja okkar helstu birgja um umhverfis- og loftslagsáhrif af þeirra starfsemi.
 • Fyrir árslok 2022 ætlum við að meta kolefnisspor lánasafnsins og í framhaldi af þeirri vinnu setja okkur markmið um hvernig við getum dregið úr sporinu til ársins 2030 í samræmi við markmið Parísarsamkomulagsins.
 • Frá og með árinu 2023 mun bankinn ekki kaupa inn bíla nema þeir noti 100% endurnýjanlega orkugjafa.
 • Við ætlum að koma hlutfalli flokkaðs úrgangs í rekstri bankans í 90% fyrir árið 2023.

Helstu þættir í umhverfisuppgjöri Arion banka fyrir árið 2019

Ítarlegar niðurstöður umhverfisuppgjörs má finna í töflu fyrir ófjárhagslegar upplýsingar. Hér fyrir neðan er myndræn framsetning á helstu niðurstöðum.

Ófjárhagslegar upplýsingar

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í eigin rekstri, þ.e. vegna bifreiða og húsnæðis, hefur dregist saman um 29,3% frá árinu 2015 (umfang 1 og 2). Þar af hefur heildarlosun vegna bifreiða dregist saman um 26,5% og vegna húsnæðis um 31,6%. Helsta tækifærið í rekstri bankans til að draga enn frekar úr losun er að hætta alfarið kaupum á eldsneyti fyrir bíla. Bankinn mun ekki kaupa inn bíla nema þeir noti 100% endurnýjanlega orkugjafa frá og með árinu 2023 og er það liður í að draga úr losun í eigin rekstri um a.m.k. 40% fyrir árið 2030.

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna bifreiða (umfang 1)
tCO2í
Losun gróðurhúsalofttegunda vegna húsnæðis* (umfang 2)
* Upplýsingar um losun í umfangi 2 eru birtar með fyrirvara um að álestra gæti vantað á mæla vegna rafmagns og hitaveituvatns í lok árs 2019. Gögn uppfærast með sjálfvirkum hætti í kerfi Klappa og verða birt með leiðréttingum í næsta umhverfisuppgjöri.

Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030 og á hverju ári munum við fara í mótvægisaðgerðir til að kolefnisjafna reksturinn.

Á þessu ári erum við í samstarfi við Kolvið sem gróðursetur um 5.000 tré til að vega upp á móti losun ársins 2019.
Heildarlosun vegna bifreiða og húsnæðis með markmiðum til ársins 2030 (án mótvægisaðgerða)
tCO2í
Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna aðkeyptrar þjónustu (umfang 3 án mótvægisaðgerða)
tCO2í

Með aukinni gagnaöflun höfum við betri upplýsingar um aðkeypta þjónustu (umfang 3). Á árunum 2015-2018 bættist m.a. millilandaflug, flugferðir verktaka, flug á vegum erlendra flugfélaga, leigubílaferðir og gagnaeyðing við umhverfisuppgjör bankans sem skýrir að hluta til af hverju skráð heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna aðkeyptrar þjónustu hefur hækkað.

Losun vegna flugferða bankans hefur aukist annað árið í röð en árið 2018 var bankinn skráður á markað á Íslandi og í Svíþjóð og hefur utanlandsferðum fjölgað talsvert í kjölfarið.

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna flugferða (hluti af umfangi 3)
tCO2í

Í uppgjöri ársins 2019 kemur fram að bankinn flokkaði 68,5% af þeim úrgangi sem féll til í starfseminni en talsvert lægra hlutfall eða 48% fór í endurvinnslu hjá sorphirðuaðila. Þessi lækkun á endurvinnsluhlutfalli milli ára skýrist að mestu leyti af því að ferli Sorpu sem tók við lífrænum úrgangi frá höfuðstöðvum bankans virkaði ekki sem skyldi árið 2019 og því fór sá úrgangur fyrstu 8 mánuði ársins í urðun en ekki í viðeigandi ferli.

Markmið Arion banka eru að koma hlutfalli flokkaðs úrgangs í 90% fyrir árið 2023.
Flokkað sorp

Ítarlegt umhverfisuppgjör Arion banka fyrir árið 2019 er eins og fyrr segir að finna í samantekt á ófjárhagslegum upplýsingum. Gögn og upplýsingar í uppgjörinu gilda fyrir árið 2019 og tengjast meginstarfsemi Arion banka, dótturfélög standa utan uppgjörsins. Gögn frá árunum 2015-2018 eru sett fram til samanburðar en árið 2015 er viðmiðunarár bankans þegar kemur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi bankans til ársins 2030.

Í umhverfisuppgjöri bankans hefur náðst góður árangur í að safna saman gögnum með rafrænum gagnastraumum í gegnum kerfi Klappa grænna lausna. Þó eru útistandandi upplýsingar um starfsstöðvar þar sem bankinn deilir húsnæði með öðrum, svo sem í verslunarkjörnum, þegar kemur að sorphirðu, hita og rafmagni.

Á sama tíma og bætt var við fleiri gagnastraumum fyrir árið 2019 var ákveðið að endurreikna gögn fyrir tímabilið 2015 til og með 2018 samkvæmt nýjustu upplýsingum. Af þessu hlýst ákveðið misræmi ef uppgjör þetta er borið saman við fyrri umhverfisuppgjör.

 

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og UN Global Compact

Markmið bankans í umhverfismálum sem kveður á um að bankinn muni leita leiða til að draga úr neikvæðum loftslagsáhrifum starfseminnar og virðiskeðjunnar styður við þrettánda heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir í loftslagsmálum. Þá styður umhverfis- og loftslagsstefna bankans einnig við sjöunda heimsmarkmiðið um sjálfbæra orku, það níunda um nýsköpun og uppbyggingu og það tólfta um ábyrga neyslu og framleiðslu. Með aðild okkar að ýmsum samtökum og skuldbindingum, bæði innanlands og alþjóðlega, eflum við samstarf á sviði sjálfbærrar þróunar.

Með aðgerðum sínum og markmiðum styður bankinn einnig við viðmið sjö til níu, sem snúa að umhverfismálum, í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð fyrirtækja, UN Global Compact, en Arion banki hefur verið aðili að sáttmálanum frá árslokum 2016.

Samstarf á sviði umhverfis- og loftslagsmála

Í september 2019 gerðist Arion banki aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi, Principles for Responsible Banking (UN PRB). Með reglunum, sem kynntar voru við upphaf allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna á árinu, er verið að tengja starfsemi banka við mikilvæg alþjóðleg markmið og skuldbindingar á sviði sjálfbærni, eins og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og Parísarsamkomulagið. Arion banki er í hópi þeirra fyrstu til að lýsa yfir stuðningi við meginreglurnar og er þar í hópi um 130 banka frá 49 löndum. Með undirskriftinni skuldbinda bankarnir sig til að vinna markvisst að því að auka jákvæð áhrif og draga úr neikvæðum áhrifum á samfélagið og náttúruna og að greina frá árangrinum á gagnsæjan hátt.

Arion banki og Kolviður gerðu á árinu 2019 samstarfssamning sín á milli um bindingu þeirrar kolefnislosunar sem hlýst af starfsemi bankans. Kolviður mun binda kolefni í gróðri og jarðvegi með landgræðslu og skógrækt á móti þeirri kolefnislosun sem á sér stað í rekstri bankans á árinu 2019. Áætlað er að Kolviður muni gróðursetja allt að 5.000 tré fyrir rekstrarárið. Um er að ræða losun m.a. vegna bifreiða í rekstri bankans, húsnæðis, sorps og flugsamgangna.

Á myndinni má sjá Einar Gunnarsson og Reyni Kristinsson frá Kolviði, Stefán Pétursson, fjármálastjóra Arion banka, og Hlédísi Sigurðardóttur, verkefnastjóra samfélagsábyrgðar hjá bankanum.

 

Í september 2019 gerðist Arion banki einn af stofnaðilum samstarfsvettvangs atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir sem fékk nafnið Grænvangur. Hlutverk Grænvangs er að efla samstarf atvinnulífs og stjórnvalda til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að kolefnishlutleysi árið 2040. Þá mun vettvangurinn einnig vinna með íslenskum fyrirtækjum að markaðssetningu grænna lausna á alþjóðamarkaði og styðja við orðspor Íslands sem leiðandi lands á sviði sjálfbærni.

Í ársbyrjun 2020 undirritaði bankinn áskorunina Hreinn, 2 og 3! á vegum Grænvangs þar sem skorað er á fyrirtæki að lýsa yfir orkuskiptum í vegasamgöngum. Í verkefninu felst að nýskráningar fyrirtækjabíla sem knúnir eru áfram af jarðefnaeldsneyti verði lagðar af fyrir árið 2023. Með því verður Ísland í forystu á heimsvísu hvað varðar notkun umhverfisvænni orkugjafa. Er þessi yfirlýsing í takt við markmið sem sett voru í tengslum við samþykkt nýrrar umhverfis- og loftslagsstefnu bankans þar sem fram kemur að ekki verði keyptir inn bílar nema þeir noti 100% endurnýjanlega orkugjafa frá og með árinu 2023.

Arion banki undirritaði loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar í nóvember 2015 og hefur frá árinu 2016 birt umhverfisuppgjör bankans og á það einnig við um árið 2019. Í yfirlýsingunni er lögð áhersla á að fyrirtæki dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnki myndun úrgangs, mæli árangurinn og gefi reglulega út upplýsingur um stöðu ofangreindra þátta. Frá árinu 2015 hefur Arion banki verið í samstarfi við nýsköpunarfyrirtækið Klappir grænar lausnir um gerð umhverfisuppgjörs og innleitt heildstæða hugbúnaðarlausn frá þeim, Klappir Core, þar sem upplýsingum er streymt inn í kerfið frá gagnalindum með rafrænum hætti. Klappir grænar lausnir staðfesta jafnframt umhverfisuppgjör bankans og gefa út skýrslu þar sem fjallað er um áreiðanleika gagna.

Nokkrar áhugaverðar staðreyndir um umhverfismál Arion banka

 • Samgöngustyrkir hafa verið veittir starfsfólki frá árinu 2012. Með samgöngustefnu sinni leggur Arion banki sitt af mörkum til að bæta heilsu starfsfólks og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá bifreiðum. Markmið samgöngustefnu bankans er að auka nýtingu starfsfólks á vistvænum og hagkvæmum ferðamáta. Með vistvænum samgöngum er átt við allan ferðamáta til og frá vinnu annan en einkabílinn, s.s. að ganga, hjóla, fá far með öðrum eða ferðast með almenningssamgöngum. Á árinu 2019 nýttu tæplega 25% starfsfólks sér samgöngustyrk bankans hluta úr ári.

 • Við höfum dregið verulega úr notkun einnota plasts í starfsemi Arion banka, m.a. með bættum ferlum í mötuneyti í höfuðstöðvum og með innleiðingu á kælikerfi fyrir fjölnota vatnsflöskur úr gleri. Þá höfum við samið við fjölda birgja um að tryggja að aðföng berist í fjölnota plastbökkum í stað einnota plastumbúða. Áfram verður unnið að því að draga úr einnota plastnotkun á árinu 2020.

 • Við höfum þegar rafvætt stóran hluta bílaflota okkar.

 • Við höfum farið í vitundarvakningu um matarsóun í mötuneytinu í höfuðstöðvum bankans og allur matur sem til fellur af diskum starfsfólks er mældur daglega. Góður árangur hefur náðst með þessari vitundarvakningu.

 • Við hvetjum viðskiptavini okkar til að hugsa sig tvisvar um áður en þeir prenta út tölvupósta frá okkur og hvetjum þá til að afþakka yfirlit í netbanka.

 • Bílafjármögnun Arion banka býður 50% afslátt af lántökugjöldum við fjármögnun vistvænna bíla. Með því að bjóða betri kjör við kaup á vistvænum bílum styður Arion banki viðskiptavini sína í þeirri vegferð að nota vistvænni orkugjafa og þar með menga minna.

 • Í lánareglum bankans kemur fram að við mat á áhættu vegna lánveitinga skuli eftir föngum horft til þátta sem snúa að samfélagsábyrgð og sjálfbærni. Með samfélagsábyrgð og sjálfbærni er átt við stjórnarhætti fyrirtækja og áhrif þeirra á umhverfi og samfélag.

 • Eignastýring fagfjárfesta hjá Arion banka hefur greint öll fyrirtæki sem eru skráð á aðalmarkað hér á landi út frá frammistöðu við að upplýsa um stöðu sjálfbærni og samfélagsábyrgðar, þ.m.t. umhverfis- og loftslagsmála.