Það er ein af grunnskyldum allra fyrirtækja að vera rekin með ábyrgum og arðsömum hætti til hagsbóta fyrir alla haghafa: viðskiptavini, hluthafa, starfsfólk og samfélagið í heild. Til lengri tíma litið eru aðeins arðsöm fyrirtæki fær um að fjárfesta í þjónustu við sína viðskiptavini og leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Eitt helsta markmið okkar hjá Arion banka á árinu 2019 var að styrkja stöðu bankans til framtíðar og gera honum betur kleift að styðja við viðskiptavini sína og skila hluthöfum arði. Um mitt ár réð stjórn bankans nýjan bankastjóra til starfa, Benedikt Gíslason, og nýtt skipurit tók gildi á haustmánuðum í kjölfar umfangsmikilla skipulagsbreytinga.

Bankar gegna mikilvægu hlutverki í efnahagslífi hvers lands. Eitt mikilvægasta hlutverk banka er að vera milliliðir sem miðla fjármagni frá þeim sem leita ávöxtunar á sparifé sínu til þeirra sem leita fjármagns til fjárfestingar, t.d. til uppbyggingar atvinnustarfsemi og í íbúðarhúsnæði. Bankar skipta því samfélagið sem þeir starfa í miklu máli og stuðla að hagvexti, atvinnusköpun og blómlegu efnahagslífi. Það er því mikilvægt að þeim séu sköpuð góð starfsskilyrði og að stjórnvöld setji ekki hindranir í veg þeirra.

Stefna stjórnvalda leiðir til hærra vaxtastigs

Margvíslegar breytingar hafa átt sér stað á undanförnum áratug á því regluverki sem fjármálafyrirtæki starfa eftir. Þær breytingar byggja að miklu leyti á tilskipunum Evrópusambandsins og innleiðingu þeirra í íslensk lög. Við innleiðingu í íslensk lög settu íslensk stjórnvöld ýmis íþyngjandi sérákvæði vegna óvenjulegra aðstæðna sem uppi voru hér á landi á sínum tíma. Þessi séríslensku ákvæði snúa m.a. að háum eiginfjárkröfum og ofursköttum langt umfram það sem þekkist í Evrópu og eru enn í gildi þrátt fyrir gjörbreyttar aðstæður í íslensku efnahagslífi. Um er að ræða skatta eins og fjársýsluskatt, sérstakan fjársýsluskatt og bankaskatt. Þrátt fyrir fyrirhugaða lækkun bankaskatts verður hann enn margfaldur á við það sem þekkist annars staðar í Evrópu. Þessir sérstöku skattar tengjast ekki tekjum eða hagnaði heldur kostnaði og leggjast t.a.m. á fjármögnun og launakostnað. 

Þrátt fyrir fyrirhugaða lækkun bankaskatts verður hann enn margfaldur á við það sem þekkist annars staðar í Evrópu.

Sértækir íslenskir skattar auka rekstrarkostnað íslenskra banka og veikja samkeppnisstöðu þeirra gagnvart öðrum lánveitendum, bæði innlendum og erlendum. Stefna stjórnvalda leiðir þannig með beinum hætti til þess að lánakjör sem innlendir bankar bjóða eru óhagstæðari en ella sem aftur hefur neikvæð áhrif á hagvöxt og atvinnusköpun. Aðgerðir stjórnvalda á undanförnum áratug, sem um margt voru rökrétt svar við þeim aðstæðum sem þá voru uppi, hamla þannig útlánagetu íslenskra banka og draga úr getu þeirra til að styðja við verðmætasköpun og aukinn hagvöxt. Nú þegar hægt hefur á í íslensku efnahagslífi er mikilvægara en áður að fjármálafyrirtæki geti sinnt sínu hlutverki sem milliliðir með skilvirkum hætti. Stjórnvöld þurfa því að endurskoða sína stefnu og horfa til hlutverks banka í eflingu fjölbreytts atvinnulífs, velsældar og lífsgæða hér á landi. 

Aukið samstarf um innviði væri til bóta

Sú skoðun er nokkuð útbreidd að fjármálakerfið hér á landi sé of dýrt. Vissulega er nokkuð til í því enda eru hér þrír bankar sem eru skilgreindir sem kerfislega mikilvægir og því fylgja viðbótarkvaðir og kostnaður. Til nokkurs er að vinna með að gera íslenskum bönkum kleift að vinna saman í ríkari mæli þegar kemur að innviðum eins og upplýsingatækni, vörnum gegn peningaþvætti og rekstri hraðbanka án þess að það hafi neikvæð áhrif á samkeppni þeirra á milli. Vissulega eiga fjármálafyrirtæki í dag í samstarfi, t.d. í gegnum Reiknistofu bankanna, en tækifærin eru víðar og þau þarf að nýta og stjórnvöld þurfa að greiða leiðina.

Hagræðing nauðsynleg

Arion banki tók á árinu frumkvæði í að bregðast við þeim aðstæðum sem eru uppi á íslenskum fjármálamarkaði og þeim starfsskilyrðum sem stjórnvöld hafa skapað. Á fundi sínum þann 26. september samþykkti stjórn bankans skipulagsbreytingar sem fólu í sér að starfsfólki bankans fækkaði um 12% og sviðum bankans var fækkað um tvö úr átta í sex.

Arion banki tók á árinu frumkvæði í að bregðast við þeim aðstæðum sem eru uppi á íslenskum fjármálamarkaði og þeim starfsskilyrðum sem stjórnvöld hafa skapað.

Þrátt fyrir skipulagsbreytingar er stefna bankans um að veita viðskiptavinum sínum alhliða fjármálaþjónustu í öllum aðalatriðum óbreytt. Hins vegar fólst í þeim ákveðin stefnubreyting, ekki síst þegar kemur að lánveitingum til stærri fyrirtækja. Á þeim vettvangi er bankinn, sökum hárra eiginfjárkrafna og skatta, ekki samkeppnisfær eigi lánin að skila ásættanlegri arðsemi. Arion banki mun gagnvart þessum fyrirtækjum leggja höfuðáherslu á að veita faglega ráðgjöf og aðstoða þau við að finna hagstæðustu fjármögnun hverju sinni. Þetta felur einnig í sér aukna áhættudreifingu í lánasafni bankans. Arion banki leitast við að hafa fáar stórar skuldbindingar á sínum bókum og í því sambandi leggjum við áherslu á samstarf við aðra lánveitendur, innlenda og erlenda.

Félög til sölu reynast þung í skauti

Því er ekki að neita að þessi stefnubreyting hvað stærri fyrirtæki varðar er að hluta til komin í ljósi þeirra áfalla sem bankinn hefur orðið fyrir á undanförnum árum. Gjaldþrot flugfélaganna WOW air og Primera Air höfðu neikvæð áhrif á afkomu bankans og aðkoma Arion banka að fjármögnun kísilverksmiðjunnar í Helguvík er vel þekkt. Tjón vegna þessara mála hefur verið umtalsvert fyrir bankann bæði hvað varðar fjárhag og orðspor og af því höfum við dregið lærdóm. Arion banki hefur ráðist í nauðsynlegar breytingar á stefnu og aðferðafræði hvað varðar stærri lánveitingar. Eftir stendur að bankinn vinnur nú úr þessum málum og að sölu yfirtekinna félaga og mun taka þann tíma sem nauðsynlegur er til að skila eins farsælli niðurstöðu og kostur er.

Stefnubreyting hjá Valitor

Valitor, dótturfélag bankans, hefur á undanförnum árum fjárfest umtalsvert í alþjóðlegum vexti. Til viðbótar við starfsemi Valitor á Íslandi er félagið með starfsstöðvar í Danmörku og á Bretlandi og þjónar Valitor fyrirtækjum víða um Evrópu. Þótt margt hafi gengið ágætlega hjá félaginu og það þróað öflugar greiðslulausnir hafa tekjur af alþjóðlegri starfsemi félagsins ekki staðið undir væntingum. Stjórn Valitor tók þá ákvörðun í lok árs 2019 að draga úr fjárfestingu í alþjóðlegri starfsemi félagsins og styrkja kjarnastarfsemi þess. Fækkaði starfsfólki Valitor á árinu 2019 um 20%. Gert er ráð fyrir því að þessar breytingar leiði til þess að félagið muni á árinu 2020 skila jákvæðri rekstrarafkomu fyrir afskriftir og fjármagnsliði.

Valitor hefur verið í söluferli um nokkurt skeið þar sem stefnt er að sölu félagsins að hluta eða öllu leyti. Söluferlið hefur tekið lengri tíma en til stóð og mun halda áfram á árinu 2020. Eitt af markmiðum þeirra breytinga sem Valitor réðst í var að greiða fyrir sölu félagsins.

Ábyrg bankastarfsemi að leiðarljósi

Arion banki gerðist í september 2019 aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi. Með reglunum, sem kynntar voru á haustmánuðum við upphaf Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, er verið að tengja starfsemi banka við alþjóðleg markmið og skuldbindingar á sviði sjálfbærni eins og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og Parísarsamkomulagið. Arion banki var þar í hópi 130 banka frá 49 löndum sem lýstu því yfir að þeir ætli að fylgja þessum reglum.

Sem milliliðir á fjármálamarkaði gegna bankar lykilhlutverki hvað varðar loftslagsmál og það er afar mikilvægt að bankar heimsins beiti sér þegar kemur að orkuskiptum og grænni innviðauppbyggingu. Skyldur banka í þessu sambandi eru miklar og munu þær í æ ríkari mæli setja mark sitt á starfsemi Arion banka, hvort sem um er að ræða innkaup, rekstur eða þjónustu við viðskiptavini.

Sem milliliðir á fjármálamarkaði gegna bankar lykilhlutverki hvað varðar loftlagsmál og það er afar mikilvægt að bankar heimsins beiti sér þegar kemur að orkuskiptum og grænni innviðauppbyggingu. Skyldur banka í þessu sambandi eru miklar og munu þær í æ ríkari mæli setja mark sitt á starfsemi Arion banka, hvort sem um er að ræða innkaup, rekstur eða þjónustu við viðskiptavini.

Stjórn bankans samþykkti einnig á árinu nýja umhverfisstefnu og markmið til næstu ára. Þar er meðal annars horft til þess að meta kolefnisspor lánasafns bankans og að í framhaldi verði sett markmið um hvernig bankinn geti dregið úr kolefnisspori lánasafnsins til ársins 2030 í samræmi við markmið Parísarsamkomulagsins.

Jákvæð þróun hlutabréfaverðs

Í samræmi við yfirlýsta stefnu hefur Arion banki á árinu greitt hluthöfum sínum arð og keypt til baka eigin hlutabréf í samræmi við endurkaupastefnu. Þróun á gengi hlutabréfa bankans í kauphöllunum á Íslandi og í Stokkhólmi var jákvæð á árinu og með því besta sem gerist meðal norrænna skráðra banka. Hluthafar virðast horfa jákvæðum augum á þær breytingar sem eru að eiga sér stað hjá Arion banka og dótturfélögum og þá stefnu sem stjórn og nýir stjórnendur bankans hafa markað. Við munum halda áfram á þessari braut og vinna ötullega að því að ná markmiðum bankans, þ. á m. um arðsemi yfir 10% og 50% kostnaðarhlutfall.

Í kjörstöðu til að sækja fram

Nokkrar breytingar urðu á stjórn Arion banka í upphafi árs. Undirritaður tók við formennsku á aðalfundi og nýr bankastjóri og aðstoðarbankastjóri tóku til starfa um og upp úr miðju ári. Höskuldur H. Ólafsson, sem gegnt hafði starfi bankastjóra í níu ár, kvaddi því bankann sem og hluti framkvæmdastjórnar. Þakka ég þeim, sem og öllu því starfsfólki sem hélt á ný mið á árinu, samstarfið og mikilvægt framlag til bankans og uppbyggingar hans á undanförnum árum. 

Nýju fólki fylgja eðlilega nýjar áherslur eins og þær skipulagsbreytingar sem ráðist var í á haustmánuðum bera með sér. Ég er þess fullviss að bankinn standi afar vel og hafi styrkt stöðu sína enn frekar sem forystuafl á íslenskum fjármálamarkaði. Arion banki er í kjörstöðu til að sækja fram, veita viðskiptavinum enn betri þjónustu og skapa hluthöfum arð í takt við markmið bankans.

Ég þakka starfsfólki, stjórnendum og stjórn fyrir samstarfið á árinu.