Árið 2019 einkenndist um margt af breytingum á yfirstjórn og skipulagi bankans. Ráðist var í skipulags- og áherslubreytingar síðla árs og sjást jákvæð áhrif breytinganna á afkomu fjórða ársfjórðungs. Gætir áhrifa breytinganna bæði á tekju- og kostnaðarhliðinni. Félög sem bankinn er með í söluferli höfðu aftur á móti neikvæð áhrif á afkomu ársins sem var aðeins um 1,1 milljarður króna. Unnið verður að því á árinu 2020 að leiða söluferli þessara félaga til lykta. Eiginfjárhlutfall bankans er áfram mjög sterkt og verða tekin frekari skref til að ná fram hagstæðari fjármagnsskipan. Góður árangur náðist á árinu í áframhaldandi þróun stafrænna lausna og tók bankinn afgerandi skref í átt að opnu bankakerfi. Framtíð bankans er björt. Bankinn er með sterka markaðsstöðu, hefur skýr markmið og metnaðarfulla framtíðarsýn.

Markmið þeirra skipulags- og áherslubreytinga sem ráðist var í undir lok þriðja ársfjórðungs var að einfalda starfsemi bankans, efla þjónustu við stærri fyrirtæki og bæta afkomu reglulegrar starfsemi. Var sviðum bankans og framkvæmdastjórum fækkað úr átta í sex og starfsfólki fækkaði um 12%, mest í höfuðstöðvum bankans. Margt gott og hæft starfsfólk kvaddi bankann í þessum breytingum sem án efa lætur að sér kveða á nýjum vettvangi. Fjórði ársfjórðungur er fyrsti ársfjórðungurinn þar sem áhrifa breytinganna gætir og var arðsemi af áframhaldandi starfsemi á fjórða ársfjórðungi 10,8% og kostnaðarhlutfall 54,9%. Sala á hluta íbúðalánasafns bankans hafði einnig jákvæð áhrif á afkomu fjórðungsins sem nema um 1,1 milljarði króna. Markmið bankans um arðsemi umfram 10% og 50% kostnaðarhlutfall standa óhögguð.

Eigið fé er dýr fjármögnun

Á árunum fyrir skráningu Arion banka í kauphallirnar á Íslandi og í Stokkhólmi óx eigið fé bankans mikið. Það er krefjandi að ná ásættanlegri arðsemi þegar eigið fé er óþarflega mikið. Oft er talað um eigið fé sem dýrasta form fjármögnunar. Það er því mikilvægur þáttur í að ná fram góðri arðsemi eiginfjár og skilvirkri notkun þess að ná fram hagstæðari fjármagnsskipan.

Það er því mikilvægur þáttur í að ná fram góðri arðsemi eiginfjár og skilvirkri notkun þess að ná fram hagstæðari fjármagnsskipan.

Stefna bankans er að minnka eigið fé með arðgreiðslum sem og endurkaupum hlutabréfa bankans. Í október 2019 var endurkaupáætlun virkjuð og í árslok höfðu yfir 41 milljón hluta, um 2,27% af útgefnum hlutum, verið keyptir og liggur fyrir aðalfundi bankans tillaga um tæplega 10 milljarða króna arðgreiðslu til viðbótar við þá 10 milljarða sem greiddir voru út á árinu 2019. Markmiðið er að með tíð og tíma verði eigið fé sem tilheyrir hluthöfum bankans (almennt eigið fé þáttar 1 eða CET1) minnkað niður í um 17% og hagstæðari skipan eiginfjár þannig komið á með fullri notkun víkjandi skuldabréfa undir viðbótar eiginfjárþætti eitt og eiginfjárþætti tvö.

Markmið um arðsemi en ekki vöxt

Það er alveg skýrt í okkar huga að það er ekki markmið í sjálfu sér að Arion banki verði stærsti bankinn á Íslandi heldur að bankinn sé vel rekinn og arðsamur. Hluti af þeim skipulagsbreytinum sem ráðist var í síðastliðinn september varða lánveitingar til stórra fyrirtækja. Þar eiga bankar, m.a. vegna eiginfjárkrafna og skattlagningar, erfitt með að keppa í kjörum við t.d. erlenda banka, lífeyrissjóði og innlendan skuldabréfamarkað. Við viljum vera raunsæ og ætlum einfaldlega ekki að keppa í verðum á þessum markaði á kostnað ásættanlegrar arðsemi. Vissulega getur það falið í sér að lánasafn bankans minnki eitthvað á næstunni en þetta felur einnig í sér að bankinn dregur úr áhættutöku þegar kemur að stærri lánveitingum og bætir þar með áhættudreifingu lánasafnsins.

Arion banki mun áfram eiga gott viðskiptasamband við stærri fyrirtæki landsins, veita þeim ráðgjöf og nýta sérþekkingu sína á sviði fjármála til að aðstoða þau við að finna hagstæðustu fjármögnun hverju sinni. Og vitanlega mun bankinn leggja til fjármagn þegar markaðurinn leysir ekki úr þeirra þörfum. Fjórða árið í röð var Arion banki leiðandi í viðskiptum með hlutabréf í kauphöllinni og á þeim grunni hefur bankinn veitt stærri fyrirtækjum landsins virðisaukandi þjónustu; má þar nefna að bankinn aðstoðaði á árinu Marel þegar fyrirtækið var skráð í kauphöllina í Amsterdam og sá um vel heppnað hlutafjárútboð TM.

Arion banki mun áfram eiga gott viðskiptasamband við stærri fyrirtæki landsins, veita þeim ráðgjöf og nýta sérþekkingu sína á sviði fjármála til að aðstoða þau við að finna hagstæðustu fjármögnun hverju sinni.

Hvað lítil og meðalstór fyrirtæki og einstaklinga varðar höldum við okkar striki – þar er ekki um neina stefnubreytingu að ræða. Ef eitthvað er munu áherslubreytingar hvað stærri fyrirtæki varðar veita okkur aukinn slagkraft til að þjónusta þennan viðskiptavinahóp enn betur.

Opin bankaþjónusta - Arion appið fyrir alla

Arion appið og stafrænar lausnir Arion banka gegna mikilvægu hlutverki í þjónustuframboði og framtíðarsýn bankans. Í dag er appið vinsælasta og öflugasta þjónustuleið bankans og þriðja árið í röð sýna kannanir að Arion appið er besta appið að mati viðskiptavina bankanna.

Við þróun á Arion appinu höfum við horft til þess að bankaþjónusta er að opnast. Hér á landi hefur PSD2 reglugerðin svokallaða, sem opnar á aðgengi að upplýsingum fjármálafyrirtækja, ekki enn verið innleidd. Engu að síður kynntum við á árinu til leiks opna bankaþjónustu með því að opna appið okkar þannig að allir geti sótt og notað það. Því næst kynntum við fjármál heimilanna, lausn í appinu sem gefur góða yfirsýn yfir heimilisbókhaldið. Í samstarfi við Meniga var svo einnig opnað á yfirsýn yfir reikninga frá öðrum viðskiptabönkum. Þannig fá viðskiptavinir enn betri og þægilegri heildarsýn yfir fjármálin sín í Arion appinu sem enginn annar banki hér á landi býður upp á. Ég er ekki í nokkrum vafa um að áframhaldandi forysta á þessu sviði sé lykilatriði í samkeppni á fjármálamarkaði.

Til að þróa okkar þjónustu enn frekar ætlum við að stofna til samstarfs við spennandi fjártæknifyrirtæki í ríkari mæli en við höfum áður gert. Samstarfið við Meniga er gott dæmi um slíkt og kaup bankans á meirihluta í fjártæknifyrirtækinu Leiguskjól er það einnig. Leiguskjól er mjög áhugaverður vettvangur fyrir þá sem eru á leigumarkaði og í samstarfi við félagið bjóðum við nú húsaleiguábyrgðir sem auðvelda leigjendum aðgengi að leigumarkaðnum.

Til að þróa okkar þjónustu enn frekar ætlum við að stofna til samstarfs við spennandi fjártæknifyrirtæki í ríkari mæli en við höfum áður gert. Samstarfið við Meniga er gott dæmi um slíkt og kaup bankans á meirihluta í fjártæknifyrirtækinu Leiguskjól er það einnig.

Fjölbreyttari þjónusta í samstarfi við Vörð tryggingar

Samstarf Arion banka og Varðar, dótturfélags bankans, heldur áfram að eflast með það að markmiði að bjóða viðskiptavinum beggja félaga alhliða og þægilega fjármálaþjónustu. Nú geta viðskiptavinir bankans nálgast tryggingar Varðar í gegnum Arion appið. Einnig opnuðu Vörður og Arion banki sameiginlega afgreiðslu á Glerártorgi á Akureyri og hefur sú nýjung mælst mjög vel fyrir meðal viðskiptavina.

Það að bjóða okkar viðskiptavinum annars vegar að kaupa tryggingar í gegnum Arion appið og hins vegar að fá yfirlit yfir stöðu sinna tryggingamála er nýjung hér á landi og fyrsta skref okkar í þá átt að bjóða þjónustu þriðja aðila í okkar appi.

Gott ár í eignastýringu

Eignastýring Arion banka ásamt Stefni, dótturfélagi bankans, er sem fyrr leiðandi hér á landi með um 1.013 milljarða króna í stýringu. Þannig er bankinn með eignir í stýringu sem eru nálægt efnahag bankans sjálfs. Árið 2019 var hagfellt og almennt góð ávöxtun eigna.

Arion banki er með langa reynslu af eignastýringu og umsýslu lífeyris- og verðbréfasjóða sem og einkabankaþjónustu. Sem rekstraraðili lífeyrissjóða er bankinn fjórði stærsti aðilinn hér á landi þegar kemur að því að stýra og ávaxta lífeyri landsmanna. Að auki stýrir bankinn Lífeyrisauka sem er stærsti séreignarsjóður landsins sem tekur eingöngu við viðbótarframlagi. Fór Lífeyrisauki á árinu 2019 yfir 100 milljarða króna í stærð og eru sjóðfélagar um 80 þúsund. Það gefur því augaleið að eignastýring er afar mikilvægur þáttur í starfsemi Arion banka og erum við með stafrænar lausnir í þróun til að gera þjónustuna enn aðgengilegri og þægilegri fyrir viðskiptavini okkar. Eignastýring er afar áhugavert svið og fram undan gætu verið jákvæðar breytingar sem fela í sér frekari tækifæri fyrir bankann, t.a.m. skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa og aukið frelsi í stýringu séreignasparnaðar.

Það gefur því augaleið að eignastýring er afar mikilvægur þáttur í starfsemi Arion banka og erum við með stafrænar lausnir í þróun til að gera þjónustuna enn aðgengilegri og þægilegri fyrir viðskiptavini okkar.

Fjármálafyrirtæki hafa hlutverki að gegna í loftslagsmálum

Stjórn Arion banka samþykkti nú í desember metnaðarfulla umhverfis- og loftslagsstefnu og markmið fyrir næstu ár. Í stefnunni felst að við horfumst í augu við að loftslagsbreytingar eru ein helsta áskorun samtímans og að fjármálafyrirtæki gegna mikilvægu hlutverki í að sporna gegn þeim með lánveitingum sínum og fjárfestingum. Við viljum leggja okkar af mörkum til að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu og öðrum innlendum og erlendum loftslagssáttmálum. 

Á árinu 2020 ætlum við að meta lánasafn bankans út frá grænum viðmiðum og setja okkur markmið í þeim efnum. Við munum í auknum mæli beina sjónum okkar að fjármögnun verkefna sem snúa að sjálfbærri þróun og grænni innviðauppbyggingu. Að auki munum við í mati á okkar birgjum gera þá kröfu til þeirra að þeir taki mið af umhverfis- og loftslagsáhrifum í sinni starfsemi.

Á árinu 2020 ætlum við að meta lánasafn bankans út frá grænum viðmiðum og setja okkur markmið í þeim efnum. Við munum í auknum mæli beina sjónum okkar að fjármögnun verkefna sem snúa að sjálfbærri þróun og grænni innviðauppbyggingu.

Við gerum okkur grein fyrir því að það er engin ein einföld lausn á loftlagsvánni. Það er hins vegar ljóst að ráðast þarf í miklar fjárfestingar í grænni innviðauppbyggingu og slíkar fjárfestingar eins og aðrar verða að skila þeim sem leggja til fjármagnið ásættanlegum arði. Samvinna stjórnvalda, fyrirtækja, háskóla, frumkvöðla og fjármálafyrirtækja um heim allan er sá grundvöllur sem byggja þarf á. Á árinu undirgekkst bankinn meginreglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi ásamt um 130 öðrum bönkum frá ýmsum löndum. Meginreglurnar fela í sér ríka áherslu á loftslagsmál og grundvallast á virku samstarfi banka sem við bindum miklar vonir við.

Stefnan mörkuð til framtíðar

Fjárhagslegur styrkur Arion banka er mikill og það eru afar jákvæð merki í rekstri bankans. Við höfum skýra stefnu og sýn á hvernig við ætlum að ná okkar markmiðum. Ég er þess fullviss að bankinn hafi að undanförnu styrkt stöðu sína sem forystuafl á íslenskum fjármálamarkaði. Arion banki er vel í stakk búinn til að veita viðskiptavinum enn betri og þægilegri þjónustu og skapa hluthöfum arð í takt við markmið bankans.

Ég þakka starfsfólki bankans og stjórn fyrir samstarfið á árinu. Einnig þakka ég samstarfsfólki fyrir góðar móttökur og leiðsögn á mínum fyrstu mánuðum í starfi.