Fjárhagsniðurstöður

Hagnaður samstæðu Arion banka á árinu 2019 nam 1,1 milljarði króna samanborið við 7,8 milljarða króna árið 2018. Arðsemi eigin fjár var 0,6% en var 3,7% á árinu 2018.

Hagnaður af áframhaldandi starfsemi nam 14,1 milljarði króna á árinu samanborið við 8,9 milljarða á árinu 2018. Arðsemi af áframhaldandi starfsemi reiknast 7,2% á árinu 2019 samanborið við 4,3% á árinu 2018.

Afkoma ársins 2019 var lakari en á árinu 2018 einkum vegna virðisrýrnunar og rekstrartaps af eignum og félögum til sölu, aðallega Valitor, en almennt var bati í rekstrartölum tengdum áframhaldandi rekstri samstæðunnar.

Hagnaður
Milljarðar króna

Rekstrartekjur

Rekstrartekjur námu 48,0 milljörðum króna samanborið við 46,2 milljarða króna á árinu 2018, sem er aukning um 4%. Hreinar vaxtatekjur, hreinar tryggingatekjur og hreinar fjármunatekjur hækkuðu talsvert á meðan hreinar þóknanatekjur og aðrar rekstrartekjur lækkuðu milli ára.

Hreinar vaxtatekjur hækkuðu um 3% á árinu 2019 samanborið við 2018. Vaxtamunur af meðalstöðu vaxtaberandi eigna var sá sami 2019 og 2018 eða 2,8%. Meðalstaða vaxtaberandi eigna hækkaði um 19,5 milljarða króna milli ára, eða sem nemur 1,8% en lækkaði umtalsvert á fjórða ársfjórðungi þegar 48 milljarða króna íbúðalánasafn var selt til Íbúðalánasjóðs og sterk lausafjárstaða bankans var nýtt til uppgreiðslu á skuldabréfum útgefnum í erlendum myntum.

Hreinar vaxtatekjur og vaxtamunur
Milljarðar króna / %

Hreinar þóknanatekjur lækkuðu um 3% á árinu 2019 samanborið við 2018. Lækkunin er einkum vegna minni umsvifa á markaði, bæði í fyrirtækjaráðgjöf og miðlun verðbréfa. 

Hreinar þóknanatekjur
Milljarðar króna

Hreinar tekjur af tryggingum námu 2,9 milljörðum króna á árinu 2018 samanborið við 2,6 milljarða á árinu 2018. Tryggingafélagið Vörður varð hluti af samstæðu Arion banka á fjórða ársfjórðungi 2016 og hefur rekstur félagsins gengið vel. Tryggingaiðgjöld hækkuðu um 9% frá 2018 og tjónahlutfall lækkaði lítillega. Samsett hlutfall á árinu 2019 nam 93,1% samanborið við 92,3% á árinu 2018 og er lægra en hlutfall helstu samkeppnisaðila á íslenska markaðinum. 

Hreinar tekjur af tryggingum
Milljarðar króna / %

Hreinar fjármunatekjur jukust um 40% á árinu 2019 samanborið við 2018, einkum af hlutabréfaeign. Verðbreytingar á markaði voru fremur hagstæðar, bæði innanlands og erlendis. 

Hreinar fjármunatekjur
Milljarðar króna

Aðrar rekstrartekjur námu 0,9 milljörðum króna samanborið við 1,6 milljarða á árinu 2018 sem samsvarar lækkun um 45%. Hagnaður af sölu fasteigna, sem áður höfðu verið í rekstri bankans, var stærsti hluti annarra rekstrartekna á árinu 2019 á meðan meginhluti annarra rekstrartekna á árinu 2018 var vegna virðisbreytinga á fjárfestingaeignum. 

Aðrar rekstrartekjur
Milljarðar króna

Rekstrarkostnaður

Rekstrarkostnaður nam samtals 26,9 milljörðum króna samanborið við 26,3 milljarða króna á árinu 2018, sem samsvarar um 2% hækkun milli ára. Kostnaðarhlutfall var 56,0% samanborið við 56,9% árið 2018. Hærri rekstrarkostnaður árið 2019 samanborið við fyrra ár er einkum vegna kostnaðar við uppsagnir, sem voru framkvæmdar í kjölfar skipulagsbreytinga og fækkun stöðugilda í lok september. 

Laun og launatengd gjöld námu 14,6 milljörðum króna, sem er hækkun um 3% frá fyrra ári. Kostnaður við uppsagnir í kjölfar skipulagsbreytinga í september nam um 1,1 milljarði króna og er helsta ástæða hærri launakostnaðar samanborið við 2018. Fjöldi stöðugilda hjá samstæðunni í árslok var 801 en 904 í árslok 2018, eða 11% fækkun milli ára.

Annar rekstrarkostnaður nam 12,2 milljörðum króna á árinu 2019, sem er hækkun um 2% frá 2018. Hækkunin er einkum í tölvukostnaði og afskriftum og niðurfærslu fastafjármuna og óefnislegra eigna. 

Rekstrarkostnaður / kostnaðarhlutfall
Milljarðar króna / %

Hrein virðisbreyting var neikvæð um 0,4 milljarða króna á árinu 2019 samanborið við 3,5 milljarða á árinu 2018. Virðisrýrnun lána var umtalsverð á fyrri hluta ársins 2019 en viðsnúningur varð á seinni hluta ársins. Virðisrýrnun lána var talsverð vegna gjaldþrots flugfélagsins Wow í mars 2019 sem og vegna rekstrarerfiðleika TravelCo en jákvæð áhrif voru vegna innlausnar affalla í tengslum við sölu á 48 milljarða króna íbúðalánasafni í október 2019. Á árinu 2018 voru mest áhrif á virðisrýrnun lána vegna gjaldþrots Primera Air, samtals um 2,8 milljarðar króna vegna lána og ábyrgða.

Tekjuskattur nam 3,7 milljörðum króna samanborið við 4,0 milljarða árið 2018 sem samsvarar 8% lækkun milli ára. Tekjuskattur, eins og hann er settur fram í ársreikningi, samanstendur af 20% tekjuskatti af hagnaði og 6% sérstökum fjársýsluskatti sem lagður er á hagnað fjármálafyrirtækja umfram einn milljarð króna. Virkt tekjuskattshlutfall var 20,9% samanborið við 29,2% árið 2018. Lægra tekjuskattshlutfall er einkum vegna breyttrar samsetningar á tekjum. Til viðbótar við tekjuskatt greiða Arion banki og önnur stærri íslensk fjármálafyrirtæki bankaskatt (sem er 0,376% á skuldir umfram 50 milljarða króna) og 5,5% fjársýsluskatt af launum starfsmanna fjármálafyrirtækja. Samantekt ofangreindra skatta má sjá á myndinni hér fyrir neðan. 

Skattar
Milljarðar króna

Tap af starfsemi til sölu nam 13,0 milljörðum króna á árinu 2019. Meginskýring á þessu mikla tapi á árinu er tap af rekstri Valitors, samtals 8,6 milljarðar króna, en þar inni er 4,0 milljarða króna virðisrýrnun óefnislegra eigna og 1,2 milljarða króna skaðabætur sem greiddar voru vegna dómsmáls gegn Datacell og Sunshine Press Production. Til viðbótar var virðisrýrnun vegna silíkonverksmiðju Stakksbergs samtals 3,8 milljarðar króna og 0,6 milljarða króna niðurfærsla eigna Sólbjargs. 

Efnahagsreikningur

Eignir

Heildareignir samstæðu Arion banka lækkuðu um 7% frá árslokum 2018.

Sjóður og innstæður hjá Seðlabanka Íslands og lán til lánastofnana námu 113,7 milljörðum króna í árslok 2019 og lækkuðu um 25,8 milljarða króna eða um 21% frá árslokum 2018. Lausafjárstaða hefur einkum breyst vegna fyrirframgreiðslu á lántöku, arðgreiðslu og kaupa á eigin hlutabréfum á árinu 2019 en að því frátöldu er lausafjárstýring meginskýring breytinga á þessum liðum.

Lán til viðskiptavina námu 774,0 milljörðum króna í árslok 2019 sem er um 7% lækkun frá árslokum 2018. Í október 2019 greiddi bankinn að fullu upp samningsbundna sértryggða útgáfu, Arion CB 2, samtals að fjárhæð 62 milljarðar króna, sem var að stærstum hluta í eigu Íbúðalánasjóðs. Á sama tíma seldi bankinn íbúðalánasafn að fjárhæð 48 milljarðar króna til Íbúðalánasjóðs. Aukin áhersla á arðsemi lánasafnsins fremur en vöxt þess er einnig hluti ástæðu lækkunar á árinu auk þess sem minnkun vaxtar í íslensku efnahagsumhverfi eftir mikinn vöxt á liðnum árum hefur nokkur áhrif. Lækkun lánasafnsins var einkum í íbúðalánum, aðallega vegna sölunnar til Íbúðalánasjóðs en hjá fyrirtækjum var lækkunin mest í fasteigna- og byggingastarfsemi, heildsölu og smásölu auk fjármála- og tryggingastarfsemi.

Lán til viðskiptavina
%

Lánasafn samstæðunnar er vel dreift. Tæplega helmingur þess er lán til einstaklinga og ríflega helmingur er til fyrirtækja í hinum ýmsu atvinnugreinum og er skiptingin í takt við efnahagsumhverfið.

Lán til viðskiptavina eftir atvinnugreinum

Verðbréfaeign nam 117,4 milljörðum króna í árslok 2019 samanborið við 114,6 milljarða króna í árslok 2018. Samsetning verðbréfasafns ræðst mikið af því lausafé sem bankinn hefur til umráða hverju sinni. 

Verðbréfaeign
Milljarðar króna

Eignir og starfsemi til sölu námu í árslok 43,6 milljörðum króna samanborið við 48,6 milljarða króna í árslok 2018. Dótturfélögin Valitor Holding hf., Stakksberg ehf. og Sólbjarg ehf. eru flokkuð sem starfsemi til sölu. Heildareignir Valitors námu 30,7 milljörðum króna í árslok 2019 samanborið við 40,0 milljarða króna í árslok 2018, að mestu leyti handbært fé og bankareikningar. 

Skuldir og eigið fé

Skuldir samstæðu Arion banka lækkuðu um 9% frá árslokum 2018. Eigið fé lækkaði vegna arðgreiðslu að fjárhæð 9,1 milljarður króna og kaupa á eigin hlutabréfum að fjárhæð 3,3 milljarðar króna á árinu 2019. Hagnaður ársins kemur á móti lækkuninni að hluta. 

Skuldir og eigið fé
Milljarðar króna

Innlán frá viðskiptavinum námu 492,9 milljörðum króna í árslok 2019 og jukust um 6% frá árslokum 2018. Hlutfall lána af innlánum var 178,9% í árslok 2018 en lækkaði niður í 157,0% í kjölfar sölu á 48 milljarða króna íbúðalánasafninu til Íbúðalánasjóðs undir lok ársins. Samsetning innlána hefur þróast með hagfelldum hætti á þann veg að stærri hluti innlána er nú frá einstaklingum og smærri fyrirtækjum á viðskiptabankasviði en hlutfall stofnanafjárfesta heldur áfram að lækka. Innlán eru, nú sem áður, mikilvægasta fjármögnun bankans og bankinn leggur enn frekari áherslu á að halda eins sterkri stöðu á innlánamarkaði og kostur er.

Lántaka bankans nam 304,7 milljörðum króna í árslok 2019, sem er 27% lækkun frá árslokum 2018. Í október 2019 greiddi bankinn að fullu samningsbundna sértryggða skuldabréfaútgáfu (Arion CB 2), samtals að fjárhæð 62 milljarðar króna og í nóvember var keypt til baka útgáfa frá 2017 í evrum að fjárhæð sem samsvarar um 35 milljörðum króna og var á gjalddaga í júní 2020. Arion banki gaf út sértryggða útgáfu í krónum á íslenska markaðnum að fjárhæð 32 milljarðar króna á árinu 2019 og víxla fyrir samtals 14,5 milljarða króna.

Víkjandi lántaka nam í árslok 20,1 milljarði króna samanborið við 6,5 milljarða króna í árslok 2018. Bankinn gaf út víkjandi bréf í eiginfjárþætti 2 fyrir samtals 13,6 milljarða króna á árinu 2019, í íslenskum krónum og erlendum myntum. Heildarútgáfa víkjandi skuldbréfa í eiginfjárþætti 2 samsvarar nú um 2,8% viðbótar eigin fé. Í júní 2019 fékk bankinn úrskurð frá yfirskattanefnd, þar sem vaxtagjöld af skuldabréfum sem flokkast til eiginfjárþáttar 1 voru ekki talin frádráttarbær til skatts. Bankinn hyggst gefa út slík bréf á fyrsta ársfjórðungi 2020 og er bjartsýnn á að framangreind skattamál vegna vaxta af bréfunum verði leyst með lagabreytingu, sem taki gildi snemma árs 2020, en frumvarp þar um liggur nú fyrir Alþingi.

Eigið fé hluthafa bankans nam 189,6 milljörðum króna í árslok 2018 samanborið við 200,7 milljarða í árslok 2018. Lækkunina má einkum skýra með arðgreiðslu að fjárhæð 9,1 milljarður króna í mars og kaupum á eigin hlutabréfum að fjárhæð 3,3 milljarðar króna en á móti kemur hækkun vegna afkomu ársins. Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 hjá bankanum nam 21,2% í lok árs 2019, sem er sama hlutfall og í árslok 2018. Vogunarhlutfall var 14,1% í árslok 2019 samanborið við 14,2% í árslok 2018 og er mjög hátt í öllum samanburði á alþjóðlegum bankamarkaði. Í árslok 2019 hafði bankinn keypt 41 milljón hluta í bankanum sjálfum, í samræmi við endurkaupaáætlun sem hófst í byrjun nóvember. Voru um áramót um 18 milljón hlutir útistandandi af þeirri áætlun. Í janúar 2020 samþykkti FME tillögu stjórnar um frekari endurkaup, fyrir allt að 3,5 milljarða króna að markaðsvirði. Arðgreiðsla og endurkaup eigin bréfa eru liður í þeirri stefnu bankans að endurskipuleggja eiginfjársamsetningu bankans, til hagsbóta fyrir hluthafa og rekstur bankans almennt.