Vörður
Vörður tryggingar hf. er alhliða vátryggingafélag sem býður þægilegar tryggingalausnir á samkeppnishæfu verði fyrir einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki. Í árslok 2019 störfuðu 100 manns hjá félaginu í 92 stöðugildum og viðskiptavinir voru liðlega 60 þúsund.
Árið 2019 var gott ár í rekstri Varðar. Þar sem vöxtur í viðskiptavinahópi félagsins hefur verið mjög mikill á undanförnum árum var meðvitað ákveðið að hægja á markaðssókn um stundarsakir og leggja þess í stað áherslu á umbætur í þjónustu og þjónustulausnum. Gerðar voru veigamiklar breytingar á skipulagi starfseminnar með það að leiðarljósi að einfalda öll samskipti viðskiptavina og starfsfólks. Skipulag húsnæðis í Borgartúni tók miklum breytingum og fellur nú ákaflega vel að þeim áherslum sem mótaðar hafa verið í þjónustu. Þá má nefna að ný sameiginleg afgreiðsla Varðar og Arion banka leit dagsins ljós á Glerártorgi á Akureyri undir lok árs.
Margvíslegar umbætur litu dagsins ljós á árinu, nýjar stafrænar lausnir voru kynntar án þess að nokkru hafi verið fórnað þegar kemur að persónulegri þjónustu starfsfólks. Leiðarljós Varðar þegar kemur að þjónustu til næstu ára er „stafræn en mannleg“ en félagið ætlar að með öðrum orðum að vera í fremstu röð þegar kemur að stafrænum lausnum en að sama skapi verður sterk sveit starfsfólks til staðar þegar viðskipavinir þurfa á stuðningi og ráðgjöf að halda.
Á liðnu ári var haldið áfram að þróa starfsemi Varðar til samræmis við niðurstöður stefnumótunarvinnu sem lauk á vormánuðum 2018. Í þeirri vinnu voru fimm meginstraumar skilgreindir sem áherslur til næstu ára: þróun stafrænna þjónustulausna, gagnadrifinn rekstur, stöðugar umbætur í mannauði og menningu og fullnýting þeirra tækifæra sem felast í eignarhaldi Arion banka á Verði. Fimmti straumurinn lýtur svo að viðskiptavininum og að hann sé ávallt í öndvegi. Hann miðar að stöðugum umbótum í þjónustu, að stöðugt sé leitað leiða til að bæta upplifun og stöðu viðskiptavina. Árangur í fjórum fyrrnefndu straumunum mun síðan með einum eða öðrum hætti einnig bæta hag viðskiptavina.
Á árinu var ráðist í viðamikið samstarfsverkefni með Arion banka á sviði stafrænna lausna. Bankinn hefur leitt þróun slíkra lausna á bankamarkaði og því eðlilegt að Vörður, dótturfélag bankans, feti í þau fótspor og þrói framsæknar stafrænar lausnir. Markmið þessa tiltekna verkefnis var að þróa viðbót við app bankans og gera notendum á einfaldan hátt kleift að kaupa allar helstu tryggingar fyrir heimili í gegnum appið. Jafnframt að fólk hefði yfirlit yfir öll sín tryggingaviðskipti hjá Verði í appinu. Þessi lausn er fyrsta lausn sinnar tegundar á Íslandi og hefur ásamt endurbættum „Mínum síðum“ gert viðskiptavinum Varðar kleift að leysa hratt og milliliðalaust úr mörgum sinna erinda. Hvort tveggja verður þróað áfram á komandi mánuðum og misserum.
Samfélagsábyrgð
Vörður gefur út sína þriðju sjálfbærniskýrslu sem unnin er í samræmi við ESG-viðmið Nasdaq. Félagið hefur lagt metnað í að sinna þessum málum vel og ætlar sér að gera enn betur á komandi árum. Margt gott var gert á síðasta ári eins og að fá starfsfólk með í að vinna að samfélagsábyrgð innan félagsins. Síðastliðið vor voru þemadagar haldnir þar sem ýmsar kynningar voru í boði um málefni tengd sjálfbærni og samfélagsábyrgð. Um haustið var síðan hluti starfsdags félagsins tileinkaður samfélagsábyrgð. Ýmsar góðar hugmyndir komu frá starfsfólki um það hvernig Vörður geti dregið úr kolefnisspori sínu og haft aukin áhrif á hagaðila sína varðandi samfélagslega ábyrga hegðun.
Félagið ákvað að fara í samstarf við ráðgjafa varðandi áhættugreiningu á ESG-þáttunum með það að markmiði að finna þá þætti sem leggja ætti meiri áherslu á varðandi umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti. Í framhaldi af þeirri greiningu er ætlunin að gera áætlun til næstu ára um framgang þeirra mála sem við teljum mikilvægust.
Jafnréttismál hafa löngum fengið mikla áherslu hjá félaginu en hugtakið snýr ekki bara að launajafnrétti heldur einnig þáttum eins og virðingu, samskiptum, sanngirni, ákvarðanavaldi, tækifærum og samvinnu. Hjá Verði hefur kynjajafnrétti ríkt til margra ára bæði í stjórn og framkvæmdastjórn. Á árinu 2019 varð kynjahlutfall millistjórnenda mun jafnara en áður. Kynjahlutföll starfsfólks í árslok eru 55% konur og 45% karlar.
Félagið hlaut fyrst allra fjármálafyrirtækja jafnlaunavottun árið 2014 og fékkst hún staðfest nú sjötta árið í röð þar sem óútskýrður launamunur kynja mældist 1,2% körlum í hag. Á árinu hlaut Vörður Jafnvægisvog FKA fyrir kynjahlutfall í framkvæmdastjórn en félagið hampaði því einnig að verða Fyrirtæki ársins 2019 hjá VR, en þar fékk Vörður hæstu einkunn fyrir jafnrétti meðal stórra fyrirtækja.
Ný mannauðsstefna félagsins leit dagsins ljós á árinu en þar er dregið fram að jafnrétti er einn af lykilvísum í framfylgd mannauðsstefnu.
Vörður hefur ávallt fylgt leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem gefnar eru út af Viðskiptaráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Nasdaq Iceland. Á síðasta ári fékk félagið viðurkenningu sem Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti sér um framkvæmd matsins, en matsferlið byggir í meginatriðum á leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq á Íslandi gefa út.
Rekstur og afkoma
Rekstur Varðar gekk vel á árinu 2019 þótt ávallt séu áskoranir og viðfangsefni sem takast þarf á við. Það er mikilvægt að þær þrjár meginstoðir sem reksturinn byggir á, skaðatryggingar, persónutryggingar og fjármálastarfsemi skili að jafnaði jákvæðri afkomu. Afkoma af skaðatryggingarekstri var áfram í járnum þótt hún hafi heldur batnað á milli ára en líf- og persónutryggingastarfsemin gekk vel. Það er krefjandi og viðvarandi verkefni að ná jafnvægi í afkomu ökutækjatrygginga en samfara hækkandi launum á undangengnum árum hefur uppgjörskostnaður vegna slysa hækkað mikið. Þar sem það er bein fylgni á milli hækkunar launa og uppgjörskostnaðar vegna ökutækjaslysa hefur launahækkun undanfarinna ára leitt af sér mikinn útgjaldaauka. Jafnframt er umtalsvert kostnaðarsamara að gera við þá bíla sem búnir eru nútíma tækni- og tölvubúnaði.
Afkoma af fjármálastarfsemi var einkar góð og reyndar vel umfram þær áætlanir sem gerðar höfðu verið fyrir árið. Það er jákvætt en engu að síður er mikilvægt að afkoma af kjarnastarfsemi, það er tryggingastarfseminni, skili á hverjum tíma góðri niðurstöðu.
Verkefnin fram undan
Rekstur Varðar hefur gengið vel á undanförnum árum. Ánægjulegt hefur verið að fylgjast með fjölgun í hópi viðskiptavina og þá er einnig ánægjulegt að finna þá tryggð sem flestir viðskiptavinir halda við félagið. Það er hvatning til starfsfólks um að gera enn betur í framtíðinni.
Stöðugt er unnið að því að þróa þjónustulausnir þannig að þær henti á hverjum tíma þörfum viðskiptavina. Auk þess að vinna stöðugt að umbótum á persónulegri þjónustu félagsins er umtalsverður kraftur í mótun nýrra stafrænna lausna. Vel heppnaðar stafrænar lausnir gera viðskiptavinum kleift að sinna sínum málum hvenær sem hentar sólarhringsins árið um kring.
Mikil fjárfesting hefur átt sér stað í stjórnendaþjálfun, unnið hefur verið með sérfræðingum á því sviði í að auka og bæta færni stórs hóps stjórnenda félagsins. Þannig býr félagið sig undir að halda áfram að þróast á krefjandi tímum breytinga og samkeppni.
Framtíðarhorfur
Vöxtur og viðgangur Varðar hefur verið góður á undangengnum árum. Grunnurinn er traustur og félagið býr yfir ákaflega góðum og metnaðarfullum hópi starfsfólks. Vilji þess hóps jafnt sem eigenda er skýr, að sækja fram, þróa þjónustu og tryggingar þannig að þær mæti á hverjum tíma þeim þörfum sem fjölskyldur og fyrirtæki hafa.