Skapandi efnahagslíf og nýsköpun

Eitt af helstu áhersluatriðum Arion banka varðandi samfélagsábyrgð er að stuðla að blómlegu og skapandi efnahagslífi hér á landi. Á undanförnum árum höfum við komið að fjölda spennandi fjárfestingarverkefna með viðskiptavinum okkar, m.a. með það að markmiði að efla atvinnulíf hér á landi. Þá höfum við lagt á það áherslu að þau félög sem eru í okkar eigu en í óskyldum rekstri sé eftir föngum komið í sem breiðast eignarhald og þau skráð í kauphöll. Arion banki hefur komið að flestum nýskráningum á markað á undanförnum árum og þannig stuðlað að því að endurreisa innlendan hlutabréfamarkað og fjölga fjárfestingarkostum á almennum markaði.

Fjármálakerfið er ein af grunnstoðum samfélagsins. Traust fjármálakerfi er mikilvægt til að ávaxta fé og fjármagna þau verkefni sem samfélagið vill ráðast í. Það er því nauðsynleg forsenda hagvaxtar og skiptir samfélagið allt máli.

Hlutverk okkar er að miðla fé frá sparifjáreigendum, fagfjárfestum og öðrum sem leita eftir ávöxtun til heimila, athafnafólks og fyrirtækja sem þurfa á fjármögnun að halda til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Markmið okkar er að sinna hlutverki okkar vel og á ábyrgan og hagkvæman hátt. Við styðjum viðskiptavini okkar í þeirra verkefnum og hjálpum þeim að ná markmiðum sínum. Við leggjum okkur fram um að vera góður samstarfsaðili þegar kemur að fjárfestingum og fjármögnun, hvort sem um er að ræða fjölskyldubifreiðina, heimilið eða stærri fjárfestingar einstaklinga, fyrirtækja og opinberra aðila. Þannig leggjum við grunn að vexti og árangri viðskiptavina og stuðlum að aukinni fjárfestingu, framkvæmdum, hagvexti og skapandi efnahagslífi.

Auk þess að styðja vel við íslenskt efnahagslíf með framangreindum hætti teljum við að hvatning til nýsköpunar hafi jákvæð áhrif á samfélagið og því leggjum við okkur fram um að styðja við frumkvöðla, meðal annars með því því að veita frumkvöðlum aðgengi að ráðgjöf og fjármagni og styðja fyrirtæki í rekstri til frekari vöruþróunar. List og hönnun eru einnig stór partur af því að skapa hér á landi efnahagslíf sem einkennist af sköpunarkrafti og nýsköpun og styður Arion banki markvisst við slíkt starf.

Stuðningur Arion banka við nýsköpun og virk þátttaka í uppbyggingu efnahagslífsins, auk ábyrgrar starfsemi, styður við tvö af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, það áttunda sem fjallar um góða atvinnu og hagvöxt (e. decent work and economic growth) og það níunda sem fjallar um nýsköpun og uppbyggingu (e. industry, innovation and infrastructure).

Nýsköpun

Arion banki hefur lagt mikla áherslu á nýsköpun og tekið forskot í þeim efnum.
Stefna bankans er að vera í fararbroddi hvað varðar nýsköpun, skilvirkni og öryggi í fjármálaþjónustu. Hluti af því er að stuðla að stöðugri þróun þjónustu í takt við síbreytilegt umhverfi og nýta til þess hæfan mannauð, eigin tæknilausnir og valda samstarfsaðila.

Menning sem stuðlar að nýsköpun

Umhverfi fjármálafyrirtækja er sífellt að breytast. Áhersla á nýsköpun er því nauðsynleg og er hluti af allri starfsemi bankans til að mæta breytingum og til að efla samkeppnishæfni bankans til lengri tíma litið. Stöðug og markviss sjálfsskoðun á því hvort núverandi aðferðafræði varðandi vörur, þjónustu og verkferla er best til þess fallin að stuðla að árangri er því lykilþáttur í þeirri menningu sem bankinn vill stuðla að.

Skilvirkt ferli við úrvinnslu hugmynda að nýsköpun

Mikilvægt er að hugmyndir að nýsköpun fái skilvirka meðhöndlun á öllum stigum frá greiningu yfir í þróun og svo eftirfylgni. Bankinn vinnur nýsköpunarverkefni sem eru tengd eigin starfsemi í innri viðskiptahraðli sem ber heitið Stafræn framtíð. Í Stafrænni framtíð eru mynduð teymi starfsmanna þvert á bankann sem vinna sameiginlega að þróun og innleiðingu stafrænnar fjármálaþjónustu og hefur bankinn verið opinn fyrir því að kynna þá aðferðafræði út á við. Sem dæmi voru eftirfarandi lausnir kynntar á árinu: 

  • Fjármál heimilanna þar sem einstaklingar fá góða yfirsýn yfir öll fjármál heimilisins og greiningu á útgjöldum. Um er að ræða tímamót í fjármálaþjónustu hér á landi þar sem allir sem eru með reikninga eða kort hjá fleiri en einum banka og veita heimild fyrir flutningi gagna geta fengið heildstæða yfirsýn yfir fjármálin sín. Þessi nýjung er ekki aðeins fyrir viðskiptavini Arion banka heldur er hún öllum opin. 

  • Greiða með úrinu og símanum. Á árinu var opnað fyrir þá lausn að viðskiptavinir geta greitt fyrir vöru og þjónustu með Garmin Pay, Fitbit Pay og Apple Pay.

  • Tryggingar í Arion appinu. Allir sem sækja sér Arion appið geta með einföldum hætti fengið tilboð og keypt tryggingar hjá Verði eða séð núverandi tryggingavernd hjá Verði.

 

Stuðningur við frumkvöðla í viðskiptahröðlum 

Arion banki hefur frá árinu 2012 starfrækt viðskiptahraðalinn Startup Reykjavík en markmið verkefnisins er að skapa umhverfi þar sem frumkvöðlar njóta ráðgjafar og leiðsagnar reynslumikilla aðila í þeim tilgangi að gera hugmyndir sínar að veruleika og skapa þannig ný viðskiptatækifæri.

Þátttökufyrirtækjum er boðið fjármagn í formi hlutafjár og vinnuaðstöðu þar sem frumkvöðlar hafa tækifæri til að vinna saman, fá þjálfun og hitta einstaklinga úr frumkvöðlaumhverfinu á opnum viðburðum. Fyrirtækin fá einnig tækifæri til að kynna viðskiptahugmyndir sínar fyrir innlendum og erlendum aðilum bæði hvað varðar þróun hugmyndanna sem og mögulega framtíðarfjármögnun. Startup Reykjavík er að fullu í eigu Arion banka en viðskiptahraðallinn hefur verið rekinn í samvinnu við Icelandic Startups.

Sumarið 2019 tóku 10 fyrirtæki þátt í Startup Reykjavík viðskiptahraðlinum sem endaði á fjárfestadegi í höfuðstöðvum Arion banka þar sem rúmlega 150 fjárfestar og aðrir gestir hlýddu á kynningar fyrirtækjanna.

Fyrirtækin tíu sem tóku þátt:

Baseparking

Bílastæðaþjónusta á Keflavíkurflugvelli sem hefur þjónustað yfir 20.000 viðskiptavini.
baseparking.is

CheckMart

Skilvirkt innviða- og vistkerfi fyrir stafrænar verslanir.
www.karfa.is

Hvíslarinn

Hugbúnaðarlausn sem stuðlar að betri og öruggari þjónustu við sjúklinga með því að nýta snjalltækni, sjálfvirkni og gervigreind til að auka tímanýtingu og skilvirkni heilbrigðisstarfsfólks.

Íslensk gervigreind

Stafrænn starfsmaður í skýinu sem einfaldar verkferla og þjónustu fyrirtækja.
www.igg.is

Proency

Heilsutæknilausn fyrir fagfólk sem nýtir gervigreind til þess að auka skilvirkni sálfræðilegra aðferða og auðvelda innleiðingu heilsueflingar innan fyrirtækja.
www.proency.com

Rafíþróttaskólinn

Félagslegur og stuðningsríkur vettvangur fyrir rafíþróttaspilara til þess að efla iðkendur félagslega og hjálpa þeim að stíga sín fyrstu skref í sínum rafíþróttaferli.
www.rafithrottaskolinn.is

Rebutia

Gervigreindarhugbúnaður sem velur fatnað út frá ítarlegri greiningu á líkamsbyggingu notenda og hjálpar þeim að uppgötva fatastíl sem er sniðinn að þörfum hvers og eins.
therebutia.com

SmartSampling

Hugbúnaður fyrir vörukynningarfyrirtæki sem býður upp á betri og skilvirkari leið til þess að fá upplýsingar frá viðskiptavinum um vörur.

Snorricam

Háþróað tól fyrir kvikmyndatöku sem fest er á líkamann og gerir kvikmyndagerðarfólki kleift að ná einstökum sjónarhornum.
www.snorricam.com

TrackEHR

Hugbúnaðarlausn til að miðla upplýsingum um meðferðarplan og sjúkdómsgang á öruggan og skilvirkan hátt til inniliggjandi sjúklinga á sjúkrahúsum.
www.trackehr.is

Jafnframt hefur Arion banki starfrækt viðskiptahraðalinn Startup Energy Reykjavík sem byggir á sömu hugmyndafræði og Startup Reykjavík en þar hefur verið einblínt á verkefni og fyrirtæki í orkutengdum iðnaði og þjónustu. SER er samstarfsverkefni Arion banka, Landsvirkjunar, GEORG, Nýsköpunarmiðstöðvar, Icelandic Startups og Iceland Geothermal.

Arion banki hefur fjárfest í öllum þeim fyrirtækjum, alls um 100, sem valin hafa verið til þátttöku í viðskiptahröðlunum tveimur.

Segja má að stofnun viðskiptahraðalsins Startup Reykjavík hafi verið brautryðjandi á sínum tíma og nauðsynleg í því umhverfi sem þá var við lýði og um margt hvatning fyrir aðra hraðla, sjóði og stjórnvöld að koma með sterkari hætti að því að efla frumkvöðlastarf. Mikilvægt er að halda áfram að meta og þróa hugmyndir og verkferla sem þennan í takt við umhverfið á hverjum tíma. Arion banki hefur því til endurskoðunar með hvaða hætti aðkoma bankans verður fram á veginn á þessum vettvangi og því verður Startup Reykjavík hraðallinn ekki starfræktur sumarið 2020.

Stefnumarkandi samstarfsaðilar

 

Betri þjónusta við aðila á leigumarkaði í gegnum Leiguskjól

Leiguskjól er gott dæmi um samstarfsaðila sem bankinn hefur valið sér til að þróa áfram og styðja við tiltekna þjónustu bankans. Leiguskjól tók þátt í Startup Reykjavík hraðlinum árið 2018. Þar hófst fjárfesting bankans í félaginu þegar bankinn eignaðist 6% hlut. Á árinu 2019 gerði bankinn samstarfssamning við félagið ásamt því að auka við fjárfestinguna í félaginu og á núna 51% í félaginu. Fjárfestingin og samstarfssamningurinn við Leiguskjól eru liður í áherslu bankans á aukið samstarf við fjártæknifélög þar sem markmiðið er meðal annars að nýta grunnstoðir bankans og tengja við þann fókus og kraft sem felst í frumkvöðlastarfi.

 

Fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja með European Investment Fund

Árið 2016 hóf Arion banki samstarf við European Investment Fund (EIF) og býður nú fjármögnun fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem hyggjast innleiða nýjungar í sinni starfsemi, hvort sem um er að ræða innleiðingu á nýjum vörum, ferlum eða þjónustu. Tilgangur samstarfsins er að veita fyrirtækjum aðgang að fjármagni á lægri vöxtum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og með því styðja við nýsköpun og örva atvinnulíf, rannsóknir og þróun. Lánin eru ætluð litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem hyggjast fjárfesta í:

  • Nýrri framleiðslu
  • Innleiðingu á nýjum vörum, ferlum eða þjónustu
  • Þróun
  • Nýrri aðferðafræði
  • Tækni

EIF-sjóðurinn ábyrgist hluta lánsins sem Arion banki veitir og viðskiptavinir bankans njóta ávinnings samstarfsins í lægri vaxtakjörum. European Investment Fund er sjóður í eigu European Investment Bank, en sjóðurinn er í samstarfi við 74 fjármálafyrirtæki í 29 löndum Evrópu. Arion banki er eina fjármálafyrirtækið á Íslandi sem er í samstarfi við EIF.

 

Eyrir Sprotar - fjárfestingar í sprotafyrirtækjum

Arion banki er í samstarfi við Eyri Invest um rekstur sprota- og vaxtarsjóðsins Eyrir Sprotar slhf. Eyrir Invest og Arion banki eru stærstu hluthafar sjóðsins. Sjóðurinn er 5,5 ma. kr. að stærð og hefur fjárfest í 11 fyrirtækjum.

 

Efling nýsköpunar á fjármálamarkaði með Fjártækniklasanum

Arion banki gerðist aðili að Fjártækniklasanum á árinu 2019 sem er liður í að efla samstarf við fjártæknifélög. Tilgangur Fjártækniklasans er að efla nýsköpun í fjármálum. Að auki starfrækir Fjártækniklasinn nýsköpunarsetur og stendur fyrir ýmiss konar viðburðum. Einn slíkur viðburður var haldinn í nóvember 2019 þegar Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, tók þátt í Yltali. Þar ræddu þeir Benedikt og Gunnlaugur Jónsson, framkvæmdastjóri Fjártækniklasans, um tækifæri og ógnanir sem hefðbundinni bankastarfsemi stendur af fjártæknifyrirtækjum.

 

 

Stuðningur við unga frumkvöðla

Arion banki er einn af aðalstyrktaraðilum Nýsköpunarkeppni grunnskólanna en keppnin er ætluð nemendum í 5.-7. bekk. Nemendur fá kennslu við að þróa verkefni á sínu áhugasviði, allt frá hugmyndum til veruleika með það að markmiði að auka hugmyndaauðgi og virkja sköpunarkraft barnanna.

Jafnframt er bankinn einn af aðalbakhjörlum Ungra frumkvöðla, Junior Achievement á Íslandi. Samtökin hafa það hlutverk að búa ungt fólk undir framtíðina og auka færni þess til atvinnuþátttöku og atvinnusköpunar með því að stuðla að aukinni nýsköpunar-, frumkvöðla- og viðskiptamenntun í framhaldsskólum. Þannig er frumkvöðlastarf kynnt fyrir framhaldsskólanemum með það að markmiði að efla frumkvöðlaanda meðal ungmenna og þjálfa frumkvöðla framtíðarinnar. Árið 2019 tóku á sjötta hundrað nemenda í þrettán framhaldsskólum þátt og er útlit fyrir að fjöldinn verði enn meiri á næstu árum. Markmiðið er að gefa meirihluta íslenskra nemenda færi á að kynnast frumkvöðlastarfi af eigin raun í námi sínu. Arion banki er einn fjögurra bakhjarla verkefnisins.

Myndlist og hönnun

Arion banki hefur á undanförnum árum haldið reglulega listasýningar og fyrirlestra um myndlist og hönnun í höfuðstöðvum sínum.

Sýningin Eftir kúnstarinnar reglum sem opnuð var síðla árs 2018 í höfuðstöðvum bankans var framlengd nokkuð fram á árið 2019 vegna góðrar aðsóknar. Á sýningunni mátti finna verk eftir nokkra einfara í myndlist, m.a. verk sem ekki höfðu sést opinberlega í yfir hálfa öld, í bland við verk fjögurra samtímalistamanna.

Í mars fór hluti af HönnunarMars fram í höfuðstöðvum bankans í fjórða sinn, en árið 2016 var gerður samstarfssamningur milli Arion banka og Hönnunarmiðstöðvar Íslands um aðkomu bankans að þessari stóru hönnunarhátíð. Þá var DesignMatch haldið í höfuðstöðvum Arion banka sem hluti af HönnunarMars. Þar var um nokkurs konar kaupstefnu að ræða þar sem íslenskum hönnuðum var gefið tækifæri til að hitta erlenda kaupendur og framleiðendur og kynna hugmyndir sínar og hönnun. Bankinn hélt áhugaverðan hádegisfund um framtíðina í tilefni HönnunarMars þar sem m.a. Kristian Edwards, yfirhönnuður hjá Snøhetta, einni þekktustu arkitektastofu samtímans, og Michael Morris, sem hannað hefur fyrir NASA, héldu tölu. Og í útibúi bankans í Kringlunni fór fram vel sótt og skemmtileg hönnunarstofa fyrir fjölskylduna þar sem reynt var að móta framtíðina á framandi plánetu, en þau Sævar Helgi Bragason, betur þekktur sem Stjörnu-Sævar, og Þórey Mjallhvít Ómarsdóttir hreyfimyndagerðarmaður leiddu þátttakendur áfram í að móta skýjaborgir og furðuskepnur framtíðarinnar.

Bankinn á um 1250 listaverk eftir marga merkustu listamenn þjóðarinnar og eru þau sýnileg í útibúum og á öðrum starfsstöðvum bankans. Áhersla var á að sýna verk úr safneign bankans árið 2019 og draga fram ýmsar perlur úr henni. Í maí var sett upp sýning í höfuðstöðvunum sem sýndi úrval verka í eigu bankans. Meðal annars var ein hæðin tileinkuð blómaverkum, en á sama tíma var opnuð sýning á Kjarvalsstöðum þar sem blómaverkum Kjarvals voru gerð góð skil, en bankinn lánaði einmitt tvö málverk á þá sýningu. Bankinn hefur átt í góðu samstarfi við ýmis söfn hér á landi og erlendis, sem m.a. felst í að fá lánuð og lána verk á sýningar og má auk Kjarvalsverkanna nefna að skúlptúrverk í eigu bankans eftir Katrínu Sigurðardóttur, sem er einn kunnasti listamaður okkar Íslendinga alþjóðlega, var lánað á stóra einkasýningu hennar í Eli and Edythe Broad listasafninu í Michigan í Bandaríkjunum.

Í nóvember flutti útibú bankans á Akureyri í nýtt húsnæði og af því tilefni var ákveðið að flytja norður eitt kunnasta verkið í safneign bankans til að prýða útibúið en um er að ræða verkið Sólarlag (Straumur), stórt málverk eftir Svavar Guðnason sem listamaðurinn gerði sérstaklega fyrir fyrirrennara bankans árið 1970. Auk þess var lögð áhersla á að hafa í útibúinu fyrir norðan verk eftir listamenn sem hafa tengingu við Akureyri.