Efnahagsumhverfið
Eftir langt hagvaxtarskeið og gróskusöm ár var komið að kaflaskilum og reyndist árið 2019 róstusamt í íslensku efnahagslífi. Þrjár stærstu útflutningsgreinar landsins áttu í vök að verjast, þá sérstaklega ferðaþjónustan. Áhyggjur af flugrekstri reyndust á rökum reistar – svartsýna sviðsmyndin rættist. Heimilin brugðust við með því að halda að sér höndum og fjárfesting átti undir högg að sækja sem leiddi til verulegs innflutningssamdráttar. Framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar var þar af leiðandi jákvætt þrátt fyrir umtalsverðan útflutningssamdrátt, og afgangur af utanríkisviðskiptum raunin. Erfiðleikar útflutningsgreinanna settu svip sinn á vinnumarkaðinn og áttu þátt í að niðurstaða kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum varð hófstilltari en margir höfðu óttast. Ólíkt fyrri hagsveiflum sigldi krónan lygnan sjó, óháð brimróti þjóðarskútunnar, þróun sem átti sinn þátt í að draga úr verðbólguþrýstingi. Verðbólgan fikraði sig undir verðbólgumarkmið, verðbólguvæntingar sigu og Seðlabankinn nýtti tækifærið og lækkaði vexti verulega í þeim tilgangi að örva hagkerfið. Jafnvel þótt ókyrrð hafi einkennt árið virðist lending hagkerfisins ætla að verða mjúk, þó að ávallt séu til staðar óvissuþættir sem gætu dýpkað samdráttinn eða seinkað nýju flugtaki.
Hagvöxtur, þvert á væntingar
Í upphafi árs 2019 var ljóst að árið myndi reynast íslensku hagkerfi þungt í skauti. Erfiðleikar í flugrekstri ollu titringi, loðnan lét ekki sjá sig og harðvítug barátta geisaði á vinnumarkaði. Undir lok mars kom reiðarslagið í formi gjaldþrots WOW air og væntu flestir að hagvaxtartímabilið hefði runnið sitt skeið. Íslenska hagkerfið sýndi hins vegar mikla þrautseigju og sveigjanleika og er útlit fyrir að efnahagshöggið verði mildara en flestir væntu. Þannig mældist hagvöxtur á fyrstu níu mánuðum ársins – þvert á væntingar. Hagvöxtur ársins var engu að síður kreppukenndur þar sem aukningu landsframleiðslunnar má fyrst og fremst rekja til innflutningssamdráttar umfram útflutningssamdrátt.
Utanríkisverslun var þar af leiðandi dráttarklár hagvaxtar en einkaneyslan og aukin umsvif hins opinbera lögðu hönd á plóg. Fjárfesting hélt áfram að dragast saman og munaði þar mest um verulegan samdrátt atvinnuvegafjárfestingar, sem vó meira en þróttmikill vöxtur íbúðafjárfestingar. Þótt veruleg óvissa ríki um efnahagsþróun yfirstandandi árs, meðal annars vegna versnandi alþjóðlegra efnahagshorfa, eru undirstöður hagkerfisins sterkar og kerfið vel í stakk búið til að takast á við frekari áskoranir.
Hagvöxtur
*Fyrstu níu mánuðir ársins
Utanríkisverslun
*Fyrstu níu mánuðir ársins
Varnarsigur ferðaþjónustunnar
Íslensk ferðaþjónusta átti undir högg að sækja á liðnu ári. Rekstrarerfiðleikar í flugrekstri voru á allra vörum í upphafi árs og ljóst var að brugðið gat til beggja vona. Í mars var skammt stórra högga á milli, en um miðjan mánuðinn var hluti af flota Icelandair kyrrsettur og aðeins tveimur vikum síðar varð WOW air gjaldþrota. Slíkur framboðsskellur á flugferðum til landsins reyndist ferðaþjónustunni þungbær, enda fækkaði erlendum ferðamönnum er sóttu landið heim um 14% milli ára.
Þrátt fyrir samdrátt í komum ferðamanna reyndist tekjusamdráttur greinarinnar minni en fyrstu spár gerðu ráð fyrir, sem meðal annars má rekja til breyttrar samsetningar ferðamanna. Svo virðist sem hver ferðamaður dvelji lengur á landinu en áður og eyði meiru, bæði í krónum og erlendri mynt. Þessi þróun hefur mildað raunir greinarinnar og þar af leiðandi höggið á hagkerfið í heild sinni, enda ferðaþjónustan ennþá stærsta útflutningsgrein þjóðarbúsins og burðarás í áætluðum útflutningsvexti komandi ára.
Fjöldi ferðamanna og vöxtur ferðaþjónustunnar
*Útflutningstölur fyrir fyrstu níu mánuði ársins
Neysla á hvern erlendan ferðamann
Við fyrstu sýn ber viðskiptajöfnuðurinn ekki með sér hremmingar útflutningsgreinanna en leita þarf aftur til ársins 2016 til að finna meiri viðskiptaafgang á fyrstu níu mánuðum ársins. Útflutningsgreinarnar standa að baki viðskiptaafanginum en þó á annan hátt en ætla mætti. Þannig fer flugvélasala í upphafi árs langt með að skýra minnkandi vöruskiptahalla, á meðan samdráttur í rekstrarleigu flugvéla á stóran þátt í að viðhalda þjónustuafgangi. Af jákvæðari þróun má nefna verðhækkanir sjávarafurða og breytt neyslumynstur ferðamanna sem hafa stutt við og viðhaldið afgangi af utanríkisverslun.
Viðskiptajöfnuður
*Fyrstu níu mánuðir ársins
Frá vopnum og verkföllum til samninga
Árið hófst með vopnaskaki á vinnumarkaði og hvössum yfirlýsingum beggja vegna samningaborðsins. Þótt gripið hafi verið til verkfallsaðgerða gekk hvorki né rak í samningaviðræðum og var útlit fyrir stormasamt ár og harðvítugar deilur fylkinga. Gjaldþrot WOW air setti svip sinn á kjaraviðræður og varð einn helsti hvatinn að baki lífskjarasamningnum svokallaða. Samið var um hófstilltari beinar launahækkanir en flestir áttu von á og þar með lagður grunnur að farsælla sambandi vinnumarkaðar, verðbólgu og peningastefnu.
Þrátt fyrir varnarsigur ferðaþjónustunnar og undirritun kjarasamninga drógu fréttir af vinnumarkaðinum dám af kólnun hagkerfisins. Atvinnuleysi hefur stigið hratt og er komið yfir 4%, hópuppsagnir hafa verið fyrirferðamiklar, lítill skortur er á vinnuafli og útlit fyrir að störfum haldi áfram að fækka á næstu mánuðum. Engu að síður hefur lítið hægt á aðflutningi erlends vinnuafls, þróun sem vakið hefur athygli og undrun, enda sveigjanleiki íslensks vinnumarkaðar hingað til rómaður. Í gegnum hagsögu Íslands hefur verðstöðugleika verið fórnað til að viðhalda atvinnustigi en að þessu sinni virðist sem aðlögun hagkerfisins fari í ríkara mæli í gegnum vinnumarkaðinn, breyting sem endurspeglast í hærra atvinnuleysi en ella.
Atvinnuleysi og kaupmáttur launa
Krónan flaug yfir ókyrrðina
Á haustmánuðum ársins 2018 tók að bera á ókyrrð í flugferð krónunnar, sem fram að því hafði haldið nær stöðugri lofthæð í heilt ár. Svo virðist sem aukin óvissa og hætta á kólnun hagkerfisins hafi að miklu leyti verið verðlögð inn í gengi krónunnar þá, þar sem fregnir af loðnubresti, lífróðri WOW air og síðar gjaldþroti hreyfðu lítið við genginu, þrátt fyrir að stærstu gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar þjóðarbúsins væru í húfi. Svo virðist sem ágætt jafnvægi hafi verið á gjaldeyrismarkaði þó að velta hafi verið lítil þar sem viðskiptaafgangurinn mætti að töluverðu leyti gjaldeyriskaupum vörsluaðila innlends sparnaðar. Útflæði virðist engu að síður hafa verið meira en innflæði og svo fór að krónan veiktist um 4% gagnvart Bandaríkjadal, 8% gagnvart breska pundinu og 2% gagnvart evrunni á árinu. Til að sporna gegn óhóflegum sveiflum innan dags, bæði til veikingar og styrkingar, greip Seðlabankinn tólf sinnum inn í gjaldeyrismarkaðinn fyrir samtals 9,5 milljarða króna.
Á fyrri hluta ársins voru eftirstandandi aflandskrónueignir losaðar og snjóhengjan svokallaða því úr sögunni. Stór hluti aflandskrónueiganda kaus að fjárfesta áfram í íslensku hagkerfi og var útstreymi því óverulegt. Á sama tíma sá Seðlabankinn sér leik á borði og lækkaði bindiskylduna á fjármagnsinnstreymi á skuldabréfamarkað og hávaxtainnistæður úr 20% niður í 0%. Með breytingunum hafa nánast öll fjármagnshöft verið losuð, en eftir standa takmarkanir á afleiðuviðskipti í öðrum tilgangi en til áhættuvarna.
Gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum
Erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða og annarra innlendra fjárfesta hafa spilað lykilhlutverk í hratt batnandi erlendri stöðu þjóðarbúsins. Samkvæmt nýjustu tölum nemur hrein erlend staða þjóðarbúsins 714 milljörðum króna, sem samsvarar 24,5% af vergri landsframleiðslu, og hefur hún aldrei verið betri. Með öðrum orðum, þjóðarbúið hefur farið úr því að vera nettó lántaki yfir í að vera nettó lánveitandi til útlanda á undraskömmum tíma, staða sem hefur sjaldan áður verið upp á teningnum og styrkir viðnámsþrótt þjóðarbúsins.
Hrein erlend staða þjóðarbúsins
Verðbólgudraugurinn kveðinn í kútinn
Í kjölfar gengisveikingarinnar á haustmánuðum ársins 2018 tók verðbólgan að stíga og fór yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans, í fyrsta skipti í fjögur ár, en fram að því hafði sterk króna og aukin samkeppni haldið aftur af innlendum verðbólguþrýstingi. Hækkunartakturinn stóð hins vegar stutt, jafnvel þótt allir undirliðir toguðu í sömu átt, og tók að draga úr verðbólguþrýstingi með hlýnandi veðri enda krónan stöðug og eftirspurn í hagkerfinu á undanhaldi. Eftir samfellt sig á síðari hluta ársins 2019 var verðbólgan komin undir verðbólgumarkmið Seðlabankans við árslok. Verðbólgan mældist að meðaltali 3% árið 2018 en 2,6% sé húsnæðisliðurinn undanskilinn. Það er nýmæli í íslenskri hagsögu að verðstöðugleiki haldi jafnvel velli þegar harðnar í ári og er það til marks um aukinn þroska hagkerfisins og breiðari grunn verðmætasköpunar.
Samhliða sígandi verðbólgu tóku verðbólguvæntingar að lækka á nýjan leik. Seðlabankinn nýtti sér aukna kjölfestu verðbólguvæntinga og lækkaði vexti um 1,5 prósentustig í þeim tilgangi að mæta efnahagssamdrættinum og örva hagkerfið á nýjan leik. Meginvextir bankans stóðu því í 3% um áramót en hafa síðan þá lækkað um 25 prósentustig til viðbótar.
Undirliðir verðbólgu eftir eðli og uppruna
Grænir eignamarkaðir
Innlendir eignamarkaðir áttu góðu gengi að fagna á árinu, hvort sem litið er til hluta- eða skuldabréfamarkaðarins. Eftir þrjú ár af samfelldum lækkunum hækkaði Úrvalsvísitalan um 27,8% milli ára þegar leiðrétt er fyrir arðgreiðslum. Marel leiddi hækkanir í byrjun árs í aðdraganda skráningar félagsins í Euronext-kauphöllina í Amsterdam en þriðji fjórðungur reyndist flestum félögum þungur. Viðsnúningur varð svo á fjórða ársfjórðungi þar sem öll félög nema eitt hækkuðu og nam meðalhækkunin 11%. Heildarvelta með hlutabréf jókst einnig á nýjan leik, en hún hafði dregist saman í fyrsta sinn í átta ár árið 2018. Heilt yfir jókst velta með hlutabréf um 21% á nýliðnu ári. Tvö félög voru tekin til viðskipta á aðallista Kauphallarinnar á árinu, annars vegar Kvika banki í mars og hins vegar Iceland Seafood í október, en bæði höfðu verið skráð á First North markaðinn. Á First North markaðnum var ein nýskráning þegar fasteignaþróunarfélagið Kaldalón var tekið til viðskipta í ágústmánuði.
Húsnæðismál voru sett á oddinn í lífskjarasamningnum enda hefur húsnæðisverð hækkað talsvert umfram launaþróun síðustu ár, ekki síst árið 2017. Undanfarin tvö ár hefur þróunin verið önnur og má segja að stilla hafi ríkt á húsnæðismarkaði. Á síðasta ári hægði enn frekar á húsnæðisverðhækkunum og fór árstakturinn á höfuðborgarsvæðinu lægst í 2,4% yfir vetrartímann. Aukið framboð hefur temprað verðhækkanir og mun eflaust gera það áfram enda verulegt byggingarmagn í pípunum og íbúðafjárfesting á hraðri siglingu. Á sama tíma hefur atvinnuleysi stigið og hægt hefur á fólksfjölgun, sem dregur úr eftirspurnarþrýstingi. Á móti vegur að miklar vaxtalækkanir hafa stutt við húsnæðisverð jafnvel þótt lánaskilyrði hafi almennt verið hert á móti. Þá hefur kaupmáttur haldið áfram að aukast, þó að hægt hafi á hækkunartaktinum, og boðaðar aðgerðir hins opinbera á húsnæðismarkarkaði eru til þess fallnar að styðja við verð. Sama hvaða áhrifaþáttur nær yfirhöndinni er útlit fyrir að markaðurinn haldi áfram að leiðrétta sig og leita í nýtt jafnvægi.
Auglýstar fasteignir til sölu og húsnæðisverð
Á brattann að sækja fyrir fjárfestingu
Töluverðar breytingar urðu á útlánaþróun og dró verulega úr útlánavexti eftir því sem líða tók á árið. Staðan er hins vegar gerólík eftir því hvort litið er til heimila eða fyrirtækja. Sem dæmi má nefna að undir lok árs hafði útlánastofn til heimila stækkað um tæp 7% að nafnvirði og heildarskuldir heimila sem hlutfall af landsframleiðslu hækkað um tæpt prósentustig. Á sama tíma stækkaði útlánastofn til fyrirtækja aðeins um tæp 2% og skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu lækkuðu um þrjú prósentustig. Þetta bendir til að heimilin hafi í ríkara mæli notið vaxtalækkana en fyrirtæki landsins, sem endurspeglast í áframhaldandi samdrætti atvinnuvegafjárfestingar.
Samdrátt atvinnuvegafjárfestingar á liðnu ári má að einhverju leyti rekja til fyrrnefndrar flugvélasölu í upphafi árs sem og viðbúins fjárfestingarsamdráttar í stóriðju og raforkuframleiðslu. Samdráttur hefðbundinnar atvinnuvegafjárfestingar, annað árið í röð, er öllu meira áhyggjuefni þar sem hún felur í sér stærstan hluta verðmætasköpunar hagkerfisins. Á sama tíma og atvinnuvegafjárfesting hefur gefið eftir hefur íbúðafjárfesting aukist og stefnir hraðbyri að fyrri hágildum, enda hvatinn til nýbyggingar til staðar og mikill þrýstingur frá almenningi og stjórnvöldum á að hraða uppbyggingu.
Útlán lánakerfis
*Leiðrétt fyrir endurflokkun og skuldalækkunaraðgerðum stjórnvalda. Án útlána til innlánsstofnana, fallinna fjármálafyrirtækja og hins opinbera.
Fjárfesting
*Fyrstu níu mánuðir ársins
Hallarekstur í hægagangi
Jafnvel þótt hagkerfið hafi borið keim af kreppu urðu jákvæðar breytingar á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs, sem endurspeglar enn frekar viðnámsþrótt þjóðarbúsins. Matsfyrirtækið Fitch reið á vaðið og hækkaði skammtímaeinkunn ríkissjóðs í maí og Moody‘s fylgdi á eftir í nóvember þegar fyrirtækið hækkaði lánshæfiseinkunn ríkissjóðs um eitt þrep. S&P staðfesti óbreyttar lánshæfiseinkunnir. Fitch og S&P meta lánshæfi ríkissjóðs fyrir langtímaskuldbindingar A á meðan Moody‘s metur lánshæfiseinkunnina A2 fyrir langtímaskuldbindingar. Allir matsaðilar telja horfurnar stöðugar.
Samkvæmt endurmati á fjárlögum fyrir árið 2019 verður afkoma ríkissjóðs neikvæð um 15 milljarða króna á árinu, samanborið við 29 milljarða króna afgang sem lagt var upp með í fjárlögum. Breytinguna má fyrst og fremst rekja til versnandi efnahagsástands sem varð til þess að fjármálastefna hins opinbera var endurskoðuð. Fjármálaráðherra lagði fram fjárlagafrumvarp á haustmánuðum þar sem gert er ráð fyrir að heildarafkoma ríkissjóðs verði í jafnvægi á árinu 2020. Aukinn slaki ríkisfjármála ætti að öðru óbreyttu að milda efnahagshöggið og örva hagkerfið á nýjan leik. Engu að síður er áætlað að skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu haldi áfram að lækka og verði komnar niður í 22% í árslok.
Heildarjöfnuður ríkissjóðs
*Að frátöldum óreglulegum og einskiptis tekju- og útgjaldaliðum