GRI tilvísunartafla

Umfjöllun um samfélagsábyrgð Arion banka er í annað sinn sett fram samkvæmt Global Reporting Initiative staðalinum, GRI Core, sem hjálpar fyrirtækjum og stofnunum að miðla upplýsingum tengdum samfélagsábyrgð á gagnsæjan hátt. Upplýsingar sem settar eru fram í GRI tilvísunartöflu gilda fyrir árið 2019 og tengjast meginstarfsemi Arion banka.

Við val á efnisatriðum í árs- og samfélagsskýrslu Arion banka 2019, samantekt á ófjárhagslegum upplýsingum og í GRI tilvísunartöflu er m.a. horft til viðmiða Nasdaq á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum sem snúa að ófjárhagslegri upplýsingagjöf en einnig til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og 10 grundvallarviðmiða Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð. Við hlustum á raddir mismunandi hagsmunaðila og tökum þær með í val okkar á efnistökum í þessari skýrslu.

Í ár er lögð áhersla á að uppfylla þá þætti sem snúa að lýsingu á starfseminni, samfélagslegum áhrifum hennar, mannauði, umhverfisáhrifum, stjórnarháttum og efnahag. 

Gögn sem snúa að umhverfisáhrifum bankans eru unnin í samstarfi við íslenska nýsköpunarfyrirtækið Klappir grænar lausnir hf. Gögnum er í flestum tilfellum streymt beint frá þjónustuaðilum í umhverfiskerfið Klappir Core. Í þeim tilfellum sem gagnastraumar voru ekki tiltækir var notast við bókhaldsgögn. Klappir grænar lausnir yfirfara og staðfesta jafnframt gögnin.

Gögn sem snúa að mannauði koma úr mannauðskerfi bankans og gögn sem snúa að stjórnarháttum byggja á stjórnarháttayfirlýsingu bankans. Fjárhagsupplýsingar hafa verið endurskoðaðar og staðfestar af endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte.