Yfirstjórn

Bankastjóri

Benedikt Gíslason

Benedikt er fæddur árið 1974. Hann tók við starfi bankastjóra Arion banka 1. júlí 2019.

Benedikt hóf störf hjá FBA (síðar Íslandsbanka) árið 1998, sinnti margvíslegum stjórnunarstörfum hjá Straumi-Burðarás, var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá FL Group og framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs MP banka. Benedikt starfaði um tíma sem ráðgjafi hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og var varaformaður starfshóps stjórnvalda um afnám fjármagnshafta á árunum 2013-2016. Hann sat í stjórn Kaupþings á árunum 2016-2018 og var ráðgjafi Kaupþings í málefnum Arion banka. Hann tók sæti í stjórn Arion banka í september 2018 og var í stjórn bankans þar til hann tók við starfi bankastjóra.

Benedikt útskrifaðist með C.Sc. gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1998.

Skipurit 2019

 

Framkvæmdastjórn

 

Þjónustusvið

Aðstoðarbankastjóri og framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs

Ásgeir H. Reykfjörð Gylfason

Ásgeir H. Reykfjörð Gylfason er fæddur árið 1982. Hann tók við starfi aðstoðarbankastjóra og framkvæmdastjóra fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs í september 2019.

Ásgeir Helgi hóf störf hjá Straumi fjárfestingarbanka árið 2004 og varð síðar regluvörður samstæðunnar, starfaði hjá LOGOS lögmannsþjónustu í Reykjavík og London 2009-2012 og var yfirlögfræðingur hjá MP banka á árunum 2012-2015. Hann var meðlimur í framkvæmdahópi um losun fjármagnshafta árið 2015 og starfaði sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Kviku á árunum 2015-2019. Ásgeir kenndi viðskipti með fjármálagerninga o.fl. við lagadeild Háskólans í Reykjavík 2010-2016 og hefur setið í stjórnum nokkurra fyrirtækja hérlendis og erlendis.

Ásgeir er með lögmannsréttindi og hefur lokið lagaprófi frá Háskólanum í Reykjavík.

Framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs

Iða Brá Benediktsdóttir

Iða Brá Benediktsdóttir er fædd 1976. Hún tók við starfi framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs í júlí 2017.

Iða Brá hefur starfað hjá Arion banka og forverum hans frá árinu 1999. Frá þeim tíma hefur hún gegnt ýmsum störfum innan bankans, nú síðast sem framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs frá 2016 til 2017. Áður hafði Iða Brá m.a. verið forstöðumaður samskiptasviðs, einkabankaþjónustu og í fjárstýringu bankans. Iða hefur setið í stjórnum nokkurra fyrirtækja: Sparisjóðs Ólafsfjarðar, AFL – sparisjóðs, fasteignafélagsins Landfesta og HB Granda hf. Iða er varaformaður stjórnar Varðar trygginga.

Iða Brá er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Hún er með MSc í fjármálum frá Erasmus Graduate School of Business í Hollandi og með próf í verðbréfaviðskiptum.

Framkvæmdastjóri markaða

Margrét Sveinsdóttir

Margrét er fædd árið 1960. Hún tók við starfi framkvæmdastjóra eignastýringarsviðs Arion banka í febrúar 2009. Í september 2019 tók hún við starfi framkvæmdastjóra markaða.

Frá 2007 til 2009 starfaði hún sem forstöðumaður samskipta við erlendar fjármálastofnanir innan fjárstýringar Glitnis hf./Nýja Glitnis. Á árunum 1990 til 2007 starfaði Margrét sem forstöðumaður Verðbréfavaktar ásamt eignastýringu einstaklinga hjá Verðbréfamarkaði Íslandsbanka, síðar Eignastýringar Glitnis hf. Frá árinu 1985 til 1988 starfaði hún í lánadeild Iðnaðarbanka Íslands þar sem hún var um tíma forstöðumaður. Margrét hefur setið í fjölmörgum stjórnum og má þar nefna stjórn Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta fyrir hönd SFF, stjórn OKKAR líftrygginga hf. og í stjórnum nokkurra sjóðafyrirtækja í Lúxemborg.

Margrét útskrifaðist með MBA-gráðu frá Babson College í Massachusetts í Bandaríkjunum árið 1990 og cand. oecon.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1986. Hún er einnig með próf í verðbréfaviðskiptum.

Stoðsvið

Framkvæmdastjóri fjármálasviðs

Stefán Pétursson

Stefán er fæddur árið 1963. Hann tók við starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs Arion banka í ágúst 2010. Stefán var starfandi bankastjóri Arion banka frá 1. maí til 30. júní 2019.

Stefán hóf störf hjá Landsvirkjun 1991, fyrst sem yfirmaður lánamála en sem deildarstjóri fjármáladeildar frá 1995. Frá árinu 2002 var Stefán framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsvirkjunar auk þess að sitja í samninganefnd fyrirtækisins við orkufrekan iðnað. Stefán var í leyfi frá Landsvirkjun á árinu 2008 er hann stýrði fjárfestingarfélaginu Hydro-Kraft Invest hf. Á árunum 1986 til 1989 starfaði Stefán sem skrifstofustjóri hjá Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins. Stefán hefur gegnt fjölda trúnaðar- og stjórnunarstarfa á undanförnum árum. Hann situr nú í stjórn Landfesta hf. og Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta fyrir hönd SFF. Stefán situr í stjórn Valitor hf.

Stefán útskrifaðist með MBA-gráðu frá Babson College í Massachusetts í Bandaríkjunum árið 1991 og cand. oecon.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1986.

Framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs

Styrmir Sigurjónsson var í desember 2019 ráðinn í starf framkvæmdastjóra upplýsingatæknisviðs. Hann tekur við starfinu í febrúar 2020.

Innra eftirlit

Framkvæmdastjóri áhættustýringarsviðs

Dr. Gísli S. Óttarsson

Gísli er fæddur árið 1963. Hann tók við starfi framkvæmdastjóra áhættustýringarsviðs Arion banka í apríl 2009.

Á árunum 2006 til 2009 starfaði Gísli í áhættustýringu Kaupþings banka þar sem hann gegndi stöðu forstöðumanns innan rannsóknar- og hönnunardeildar. Frá 2001 til 2006 stýrði Gísli þróun verkfræðihugbúnaðar fyrir MSC.Software í Bandaríkjunum. Frá 1994 til 2001 stýrði Gísli þróun verkfræðiforritsins ADAMS fyrir Mechanical Dynamics Inc. í Bandaríkjunum.

Gísli hlaut doktorsgráðu í vélaverkfræði árið 1994 frá University of Michigan og meistaragráðu í hagnýtri aflfræði árið 1989 frá sama skóla. Árið 1986 lauk Gísli prófi í byggingaverkfræði frá Háskóla Íslands. Hann er auk þess með próf í verðbréfaviðskiptum.

Regluvörður

Hákon Már Pétursson

Hákon er fæddur árið 1981. Hann tók við starfi regluvarðar Arion banka í apríl árið 2011.

Á árunum 2009 til 2011 starfaði Hákon hjá KVASIR lögmenn í ýmsum málum tengdum bankastarfsemi og fjárhagslegri endurskipulagningu. Á árunum 2006 til 2009 starfaði Hákon sem sérfræðingur á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins (FME). Á þessum tíma var hann m.a. fulltrúi FME í hópi sérfræðinga vegna bæði MiFID og yfirtökutilskipunarinnar, hjá nefnd evrópskra verðbréfaeftirlita (CESR), auk þess að vera gestafyrirlesari hjá bæði Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík.

Hákon útskrifaðist sem lögfræðingur frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2007. Hann er auk þess með próf í verðbréfaviðskiptum og vottun í aðgerðum gegn peningaþvætti.

Innri endurskoðandi

Sigríður Guðmundsdóttir

Sigríður er fædd árið 1974. Hún var skipuð forstöðumaður innri endurskoðunar Arion banka í febrúar 2019.

Sigríður starfaði sem innri endurskoðandi Marel hf. frá árinu 2010 og þar til hún kom til starfa í bankanum. Áður starfaði hún á fjármálasviði Alcoa Fjarðaáls og í innri endurskoðun Landsbankans. Sigríður sat í endurskoðunarnefnd Stefnis, dótturfélags bankans á árunum 2014-2018 og í endurskoðunarnefnd Sparisjóðs Austurlands á árunum 2009-2019.

Sigríður útskrifaðist með M.Sc-gráðu í fjármálum og reikningshaldi frá London School of Economics and Political Science árið 2007 og með cand.oecon.-gráðu frá Háskóla Íslands árið 2003. Þá lauk hún CIA-faggildingu innri endurskoðenda árið 2006. Aðrar fagvottanir frá alþjóðsamtökum innri endurskoðenda (IIA) sem Sigríður hefur lokið eru CFSA, CRMA og CCSA. 

Breytingar á árinu

Á árinu 2019 urðu nokkrar breytingar á yfirstjórn Arion banka. Höskuldur H. Ólafsson lét af störfum hjá bankanum í apríl og gegndi Stefán Pétursson fjármálastjóri starfi bankastjóra tímabundið á meðan ráðningarferli nýs bankastjóra stóð yfir. Benedikt Gíslason var svo ráðinn bankastjóri og tók hann við starfinu þann 1. júlí. Jónína S. Lárusdóttir sem gegnt hafði starfi framkvæmdastjóra lögfræðisviðs lét af störfum hjá bankanum í september sem og Rakel Óttarsdóttir sem gegnt hafði starfi framkvæmdastjóra upplýsingatæknisviðs. Lýður Þ. Þorgeirsson og Rúnar Magni Jónsson fóru einnig úr framkvæmdastjórn bankans í septembermánuði.