Valitor

Valitor er alþjóðlegt greiðslulausnafyrirtæki sem veitir fjölbreytta þjónustu á sviði færsluhirðingar, greiðslugátta og útgáfu og auðveldar viðskipti með vörur og þjónustu. Valitor var stofnað árið 1983, höfuðstöðvar félagsins eru á Íslandi en starfsemin nær til 22 Evrópulanda.

Árið 2019 tókst Valitor á við meiri áskoranir en nokkru sinni og verulegar breytingar voru gerðar á starfseminni. Rekstrarniðurstaða ársins af reglulegri starfsemi var í samræmi við áætlanir félagsins en mikill einskiptiskostnaður féll til á árinu. Þar munar mest um niðurfærslur á viðskiptavild og öðrum óefnislegum eignum en einnig er vert að nefna skaðabótagreiðslur til DataCell og SPP vegna málaferla sem stóðu frá árinu 2011. Síðustu fjóra mánuði ársins komu einnig til talsverð útgjöld vegna fækkunar starfsfólks og endurskipulagningar.

Meginlínur viðskipta

Valitor rekur þrenns konar viðskiptalínur: Lausnir fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki (SMB), alrásarlausnir (Omni-Channel Solutions) og útgáfulausnir. SMB-lausnir bjóða upp á færsluhirðingu sem veitt er viðskiptavinum á Íslandi, í Bretlandi og á Írlandi með beinum hætti og í gegnum samstarfsaðila Valitor í Evrópu. Þessi þjónusta er auk þess veitt fyrirtækjum í gegnum alrásarlausnir félagsins. Alrásarlausnir Valitor samhæfa verslun á öllum sölurásum, hvort sem verslað er á netinu eða í búð, og þjóna meðalstórum og stórum viðskiptavinum á Norðurlöndum, í Bretlandi og í samevrópskri (pan-European) smásöluverslun. Flestir þessara viðskiptavina nýta sér færsluhirðingu Valitor. Valitor hefur hingað til færsluhirt Visa- og MasterCard-greiðslukort en á fyrsta ársfjórðungi 2020 bætast Amex-kort við vöruframboðið. Sú viðbót mun styrkja samkeppnishæfni félagsins. Útgáfulausnir Valitor taka til þjónustu og samstarfs við íslenska banka. Að auki veitir Valitor enn nokkrum erlendum samstarfsaðilum útgáfuþjónustu en félagið er að hverfa frá alþjóðlegri þjónustu á því sviði.

Þó að SMB-lausnir hafi skilað tapi á árinu var árangurinn betri en árið áður og horfur eru góðar fyrir árið 2020. Vöxtur tekna af SMB-viðskiptum í Bretlandi og á Írlandi var mjög ásættanlegur árið 2019. Langþráð breyting á milligjöldum, sem jafnar stöðu íslenska markaðarins gagnvart öðrum evrópskum mörkuðum, tók loks gildi hérlendis í september. Alrásarviðskipti stóðust ekki áætlanir en niðurstaðan skýrist einkum af tregari sölu en vænst var auk tafa á vöruafhendingu. Útgáfuviðskipti á Íslandi gengu að óskum líkt og undanfarin ár.

Söluferli

Í júní 2018 hóf Arion banki, eigandi Valitor, frumútboð hlutafjár og var skráður á markað. Í aðdraganda útboðsins tilkynnti bankinn að hann væri að fara yfir valkosti sína varðandi eignarhald á Valitor. Um haustið tilkynnti bankinn áform sín um að selja Valitor og í nóvember valdi bankinn Citi Group til að annast söluferli félagsins. Frá desember 2018 fram á mitt sumar 2019 vann Valitor með Citi og Ernst & Young að undirbúningi söluferlisins og áreiðanleikakönnun. Opinbert söluferli hófst í maí 2019 og stóð enn yfir í árslok.

Stefnubreyting

Fram á ofanvert ár 2019 grundvallaðist starfsemi Valitor á stefnu sem mörkuð var árið 2012. Þar var áhersla lögð á aukið magn viðskipta og aukna stærð í krafti samvinnu við samstarfsaðila. Jafnframt var horft til þess hvernig ná mætti öflugari fótfestu á mörkuðum beinna viðskipta og veita viðskiptavinum altæka þjónustu, sérstaklega í Bretlandi, á Írlandi og í Danmörku, auk Íslands. Á grundvelli þessarar stefnu fjárfesti Valitor verulega í vexti félagsins með það fyrir augum að fórna skammtímaágóða fyrir verðmætasköpun til lengri tíma. Áhersla var lögð á framsæknar greiðslulausnir, jafnframt því að byggja upp alþjóðlega starfsemi og dreifkerfi til að styrkja samkeppnisstöðu félagsins.

Sumarið 2019 ákvað stjórn félagsins að grípa til umfangsmikilla breytinga í því skyni að styrkja kjarnastarfsemi félagsins og ná fram rekstrarhagnaði fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) árið 2020. Stjórnendateymi Valitor hóf þegar í ágúst 2019 undirbúning aðgerða og var ráðist í fækkun starfsfólks á Íslandi í september og í Bretlandi í október. Í árslok var síðan tilkynnt um enn frekari fækkun starfsfólks sem ráðist var í í byrjun janúar 2020 þar sem starfsfólki félagsins var fækkað um 60 manns. Alls hefur starfsfólki félagsins fækkað um 90 manns eða sem nemur 20% frá árslokum 2018. Í janúar 2020 voru starfsmenn Valitor 330 talsins á Íslandi, Bretlandi og í Danmörku. 

Félagið er straumlínulagaðra en áður og hefur verið dregið úr áherslu á og fjárfestingu í alrásarlausn félagsins sem ekki hefur skilað þeim tekjuvexti sem til stóð. Stefnt er að því að ná rekstrarárangri á grunni tveggja meginforsendna:

  • Greiðslulausna sem beint er að SMB-fyrirtækjum í Bretlandi, á Írlandi og Íslandi og í gegnum evrópska samstarfsaðila sem endurselja kaupmönnum þjónustu Valitor
  • Útgáfulausna fyrir banka á Íslandi

Sjálfbærni og samfélag

Það er stefna Valitor að sýna gott fordæmi í umhverfismálum. Markmiðið er að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif rekstrarins með því að leggja rækt við sjálfbærni, bæði í innri og ytri starfsemi, og þá sérstaklega varðandi þá þætti sem lúta að baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Í þessu skyni er Valitor í samstarfi við Klappir grænar lausnir um markvissa lækkun á kolefnisspori fyrirtækisins. Valitor hefur undirritað samning við Kolvið um kolefnisjöfnun flugferða og notkun á bifreiðum félagsins á næstu árum. Valitor hefur endurnýjað bílaflota sinn með rafbílum og tvinnbílum. Höfuðstöðvar Valitor í Hafnarfirði eru með græn bílastæði og hleðslustöðvar fyrir bifreiðar félagsins og starfsfólks þess. Þá býður Valitor starfsfólki sínu samgöngustyrki sem stuðla að vistvænum ferðamáta. Jafnframt hefur fyrirtækið innleitt staðla sem styðjast við umhverfissjónarmið í viðskiptum við birgja og þjónustuaðila.

Samfélagsábyrgð Valitor felst ekki síst í því að fyrirtækið gegni hlutverki sínu af kostgæfni með því að tryggja að viðskiptavinir fái fyrsta flokks þjónustu og vel sé búið að starfsfólki. Í því sambandi er vert að geta þess að félagið hlaut jafnlaunavottun í mars 2019. Valitor hélt áfram að styðja við mikilvæg málefni og verkefni með samfélagssjóði sínum á árinu 2019 eins og félagið hefur gert undanfarin 28 ár.