Stefnir

Stefnir hf. er rótgróið íslenskt sjóðastýringarfyrirtæki með um 252 milljarða króna í virkri sjóðastýringu í árslok 2019. Félagið er að fullu í eigu Arion banka og tengdra félaga og starfsstöðvar félagsins eru til húsa í höfuðstöðvum bankans. Eignir í stýringu félagsins eru í eigu fjölbreytts hóps fjárfesta, allt frá einstaklingum upp í stærstu fagfjárfesta landsins. Eignir sjóðfélaga eru ýmist í verðbréfa-, fjárfestingar- eða fagfjárfestasjóðum, auk þess sem Stefnir hefur gert samninga um stýringu á eignum nokkurra samlagshlutafélaga fyrir hönd viðskiptavina sinna. Í árslok 2019 voru 22 starfsmenn hjá Stefni.

Eignir í stýringu
Milljarðar króna

Eignir í virkri stýringu lækkuðu á árinu um tæpa 79 milljarða króna eða úr rúmum 331 milljörðum króna í rúmlega 252 milljarða króna. Munaði þar mest um að fagfjárfestasjóðnum ABMIIF var slitið en hann var í upphafi árs tæpir 98 milljarðar. Að teknu tilliti til þessa jukust eignir í stýringu Stefnis um tæpa 19 milljarða á árinu. Ávöxtun sjóða var góð í öllum eignaflokkum sem skýrir stærstan hluta hækkunarinnar. Dreifing eignaflokka í stýringu er góð og tekjusamsetning félagsins í samræmi við markmið stjórnar. 

Góð ávöxtun sjóða árið 2019

Ávöxtun sjóða á árinu 2019 var góð í öllum eignaflokkum. Innlendir og erlendir hlutabréfamarkaðir skáru sig sérstaklega úr í samanburði við aðra eignaflokka. Innlendi hlutabréfasjóðurinn Stefnir – ÍS 15 hækkaði um rúm 19% á árinu. Erlendir hlutabréfamarkaðir hækkuðu umtalsvert þrátt fyrir nokkrar sveiflur eins og rúmlega 31% hækkun KF Global Value, sem er erlendur hlutabréfasjóður í stýringu Stefnis, er gott dæmi um.

Skuldabréfasjóðir áttu sömuleiðis gott ár sem skýrist einkum af lækkun ávöxtunarkröfu samhliða vaxtalækkunum Seðlabanka Íslands á árinu. Blandaðir sjóðir nutu á árinu góðs af ávöxtun hlutabréfa og skuldabréfa og skiluðu eigendum sínum ágætri ávöxtun.

Ábyrgar fjárfestingar og hlutverk Stefnis

Hlutverk Stefnis er að stýra fjármunum í eigu viðskiptavina með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Ábyrgar fjárfestingar, fjölbreyttir fjárfestingarkostir og ítarleg upplýsingagjöf eru lykilatriði við framkvæmd þeirrar samfélagsábyrgðar sem Stefnir vill standa fyrir. Með því að taka tillit til umhverfismála, samfélagslegra þátta og góðra stjórnarhátta teljum við að í okkar daglegu störfum getum við haft jákvæð áhrif á samfélag okkar, eigendum í sjóðum og öðrum haghöfum til góðs.

Stjórn Stefnis setti stefnu um ábyrgar fjárfestingar sjóða Stefnis í desember 2018 og var hún innleidd í starfsemi félagsins á árinu 2019. Fyrstu framvinduskýrslu Stefnis til PRI (UN Principles for Responsible Investment) var skilað á árinu og verður hægt að fylgjast með árangri félagsins og fylgni við reglur PRI um ábyrgar fjárfestingar á þeim vettvangi.

Stefna og stjórnarhættir

Starfsmenn félagsins og stjórn hafa lagt sig fram um að skilgreina kjarnahæfni félagsins og stjórn hefur sett félaginu árangursmarkmið sem mæld eru með reglubundnum hætti. Stjórn Stefnis hefur tileinkað sér góða stjórnarhætti og einsett sér að stuðla að og styðja við ábyrga hegðun og fyrirtækjamenningu innan Stefnis, til hagsbóta fyrir alla hagsmunaaðila félagsins.

Félagið birtir árlega á heimasíðu sinni stjórnarháttayfirlýsingu þar sem greint er frá starfsemi félagsins og áherslum til næstu missera. Mikil áhersla er lögð á gagnsæi og speglast það meðal annars í ítarlegri upplýsingagjöf á heimasíðu félagsins. Sú upplýsingagjöf er víðtækari en lög og reglugerðir mæla fyrir um.

Aðgengi að erlendum mörkuðum í gegnum sjóði Stefnis

Sérstaða Stefnis í stýringu erlendra hlutabréfasjóða er umtalsverð meðal innlendra sjóðastýringafyrirtækja þegar horft er til stærðar og umfangs erlendrar hlutabréfastýringar. Stefnir hefur á að skipa reynslumiklu teymi sérfræðinga á erlendum fjármálamörkuðum. Aðferðafræði og nálgun teymisins við stýringu erlendra hlutabréfasjóða hefur vakið athygli fyrir góðan árangur á undanförnum árum. Erlendir sjóðir í stýringu Stefnis eru ákjósanlegur kostur til áhættudreifingar fyrir innlenda fjárfesta og sparifjáreigendur.