Upplýsingatæknisvið

Arion banki hefur einsett sér að vera fremsti stafræni bankinn á Íslandi – veita þægilegustu bankaþjónustuna – með því að auka aðgengi viðskiptavina að stafrænum vörum og þjónustu bankans. Upplýsingatækni gegnir lykilhlutverki í að hrinda þessari stefnu í framkvæmd. Styrmir Sigurjónsson var í desember ráðinn nýr framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs og mun taka til starfa í febrúar 2020.

Á upplýsingatæknisviði er lögð rík áhersla á samstarf við önnur svið bankans í þeim tilgangi að bæta vörur og þjónustu bankans. Á árinu 2019 hefur sviðið komið að innleiðingu SOPRA, sem er nýtt grunnkerfi bankans, í samvinnu við Reiknistofu bankanna. Jafnframt hefur stafræn vegferð bankans haldið áfram og bankinn kynnt ýmsar nýjungar sem ekki hafa sést áður á íslenskum bankamarkaði. Meginviðfangsefni sviðsins á árinu 2020 eru áframhaldandi þróun stafrænna lausna, viðskiptavinum okkar til hagsbóta, ásamt því að ljúka innleiðingu nýs grunnkerfis. Þá mun áhersla á skýjavegferð og að auka aðgengi samstarfsaðila að kerfum og þjónustu (e. open banking) verða í fyrirrúmi.

Við vinnum hörðum höndum að því að sjálfvirknivæða og einfalda allt verklag þannig að það verði sem fæst handtök í öllum ferlum, bæði fyrir viðskiptavini og starfsfólk bankans. Við nýtum gögn og greiningar til að taka góðar ákvarðanir og vinnum markvisst að því að hanna snjallar og skapandi lausnir.

Sviðið samanstendur af fjórum deildum: Hugbúnaðarþróun Sopra, hugbúnaðarþróun vöruteyma, tæknistjórn og verkefnastofu.

Hugbúnaðarþróunardeildirnar hanna, þróa, samþætta og viðhalda lausnum með stafræna stefnu bankans að leiðarljósi ásamt því að þróa sterkar grunnstoðir sem framtíðarlausnir bankans byggja á.

Tæknistjórn ber ábyrgð á rekstri og öryggi upplýsingakerfa, högun lausna og daglegri þjónustu við notendur. Deildin ber einnig ábyrgð á uppbyggingu grunnstoða, innviða, gagnamála og skýjavegferð bankans.

Verkefnastofa sinnir verkefnastýringu þverfaglegra verkefna og vörustjórnun í takt við stafræna stefnu bankans.